Handfæraveiðar smábáta verði með öllu frjálsar
Aðalfundur Landssambands smábátaeigenda samþykkir að handfæraveiðar smábáta eigi að vera með öllu frjálsar. Hann mótmælir jafnframt kvótasetningu á hlýra og þeirri á kvörðun sjávarútvegsráðherra að lækka aflaviðmiðun til línuívilnunar. Þetta var samþykkt á aðalfundi LS, sem lauk síðastliðinn föstudag.
Aðalfundurinn krefst þess að línuívilnun nái til allra dagróðrabáta undir 30 tonnum sem róa með landbeitta línu, trekt og vélabeitningu og skorar á ráðherra að tryggja sambærilegan afla til línuívilnunar og verið hefur. Einnig að sett verði sérstök handfæraívilnun á dagróðrabáta undir 30 tonnum.
Fundurinn skorar á stjórnvöld að taka upp fyrri takmarkanir á veiðum með dragnót í Skagafirði þannig að þær verði óheimilar innan línu sem dregin er milli Ásnefs í vestri í norðurhorn Þórðarhöfða í austri. Hann beinir þeim tilmælum til sveitarstjórnar Skagafjarðar að beita sér í þessu máli til hagsbóta fyrir smábátaútgerð í Skagafirði.
Þá leggur fundurinn til að veiðar með dragnót innan 3 sjómílna við suðurströndina verði bannaðar.