Smábátarnir með yfir 500 tonn af makríl
Makrílveiðar smábáta hófust með fyrra fallinu þetta árið. Á þriðja tug báta hafa hafið veiðar og aflinn kominn yfir 500 tonn. Mest af aflanum hefur veiðst við Reykjanesið, útfrá Keflavík, en einnig hafa komið góð skot við Snæfellsnes. Þrír aflahæstu bátarnir eru nú Fjóla GK með 65 tonn, Júlli Páls SH 60 tonn og Brynja SH með 65 tonn.
„Makríllinn hefur hins vegar ekki gefið sig á krókana í Húnaflóa, þar sem hann var fyrstur til að taka í fyrra. Þá hafði Herja ST landað 40 tonnum á þessum tíma, en veiðar á öðrum svæðum vart hafnar.
Þegar farið er aftur til ársins 2017 var búið að landa 240 tonnum á þessum tíma af 10 bátum sem stunduðu veiðar við Reykjanes og veiðar að hefjast við Snæfellsnes.
Sjómenn vilja lítið láta hafa eftir sér um þróun vertíðarinnar, þó bjartsýni ríki nú hjá flestum þeirra. Binda vonir við að tíminn fari að styttast á milli þess sem hann veiðist og hann lítur ekki við krókunum.
Upphafsverð á makríl nú er mun hærra en í fyrra, kringum hundrað krónur, en var rúmar 60 krónur fyrir kílóið í fyrra,“ segir í frétt á heimasíðu Landssambands smábátaeigenda.