Skipverji af Notts County á Ísafirði

Deila:

Skotinn John Mutch, sem var í áhöfn Notts County  þegar togarinn strandaði á Snæfjallaströnd í febrúar 1968, kom aftur til Ísafjarðar í gær. Stan var farþegi á skemmtiferðaskipinu Marella Explorer sem var í Ísafjarðarhöfn. Hann gerði sér ferð í Byggðasafn Vestfjarða og færði því nokkra muni til minningar um atburðinn.

John Mutch með Lydíu Hrönn Kristjánsdóttur, starfsmanni Byggðasafns Vestfjarða.

Togarinn strandaði í aftakaveðri sem grandaði tveimur öðrum skipum, Heiðrúnu ÍS og Ross Cleveland. Báðir erlendu togararnir voru frá Hull á Englandi. Einn skipverji í áhöfn Notts County lést en 18 var bjargað, með Heiðrúnu ÍS fórust sex og á Ross Cleveland fórust 19 manns en einn bjargaðist, Harry Eddom sem kunnugt er.

Varðskipið Óðinn fór til að bjarga áhöfn Notts County. Í Morgunblaðinu 5. febrúar 2008 er aðgerðin rifjuð upp.  „Þetta var erfið ferð hjá Sigurjóni Hannessyni og Pálma Hlöðverssyni,“ sagði Sigurður Þ. Árnason, fyrrverandi skipherra á varðskipinu Óðni. Fyrrnefndir stýrimenn hans fóru á litlum slöngubáti í foráttuveðri að flaki togarans Notts County frá Grimsby við Snæfjallaströnd 5. febrúar 1968. Tókst þeim að bjarga áhöfn togarans um borð í varðskipið.

Meðal muna sem John Mutch færði Byggðasafninu að gjöf er minningarskjöldur sem hann saumaði út til minningar um félaga sinn sem lést, Robert Bowie. Einnig flugmiðinn heim frá íslandi og mynd af togaranum á strandstað.
Myndir og frétt af bb.is

 

Deila: