Auknar fjárfestingar framundan og fjölgun starfa fáist til þess leyfi

Deila:

Eldisstarfsemi fiskeldisfyrirtækisins Arcitc fish  hófst í Dýrafirði og þar er enn helsta starfsstöð félagsins í sjóeldinu. Sjö starfsmenn eru við þann hluta starfseminnar. Vinnsla afurða hefur verið í Ísafjarðarbæ, bæði á Flateyri og Ísafirði en á síðarnefnda staðnum er einnig skrifstofa Arctic Fish þar sem starfsmenn eru fjórir talsins. Við vinnsluna sjálfa starfa að jafnaði 20 starfsmenn. Á Tálknafirði er seiðaeldi félagsins með 8 föstum starfsmönnum. Við uppbygginu á aðstöðu þar hafa um 10 manns starfað og fleiri þegar meira er umleikis, á fjórða tug þegar mest er. Framundan eru síðan auknar fjárfestingar og ef leyfi sem sótt hefur verið um fást, er ljóst að ráða þarf ennþá fleira fólk til starfa. Þetta kemur fram í viðtali við Sigurð Pétursson framkvæmdastjóra Arctic fish, sem birtist í Sóknarfæri, blaði Athygli hf. um sjávarútveg.

Sigurður Pétursson arctic fish

„Frekari leyfisveitingar eru forsenda þess að fyrirtækið nái ákveðinni stærðarhagkvæmni og verði samkeppnishæft á afurðamörkuðum,“ segir Sigurður Pétursson framkvæmdastjóri og einn eigenda fiskeldisfyrirtækisins Arctic Fish. Félagið er 6 ára gamalt, var stofnað árið 2011 og þá með einum starfsmanni, framkvæmdastjóranum, en hefur heldur betur vaxið fiskur um hrygg á þeim tíma sem liðin er. Starfsemin fer nú fram víða á Vestfjörðum; Á Ísafirði, Dýrafirði, Flateyri og Tálknafirði og starfsmenn eru um 40 talsins auk þess sem 10 til 30 starfsmenn vinna við uppbyggingu á nýrri seiðaeldisstöð félagsins. Arctic Fish er nú með starfsleyfi fyrir regnbogasilung en áformar að skipta yfir í lax.

„Okkar markmið allt frá því félagið var stofnað fyrir 6 árum var að byggja upp frá grunni eldis- og framleiðslufyrirtæki þannig að eldið færi fram í náttúrulegu íslensku umhverfi. Hér á Íslandi höfum við aðgang að heitu og köldu tæru vatni, grænni orku, lágri tíðni fisksjúkdóma auk hreinnar náttúru, sem gefur okkur möguleika á sérstöðu þegar kemur að uppruna eldis. Þetta var grundvöllur okkar við stofnun félagsins,“ segir Sigurður, en stofnendur höfðu allir reynslu af framleiðslu og sölu eldisafurða. Þar má nefna félaga hans, Guðmund Stefánsson sem stýrir dreifingafyrirtækinu Novo Food í Frakklandi. Stærsti stofneigandinn er Jerzy Malek og samstarfsmenn hann, en þeir hafa byggt upp í Póllandi stærstu vinnslu á laxaafurðum þar í landi og taka einnig þátt í eldisstarfsemi utan lands.

Mikilvægt að læra inn á ferlið og aðstæðurnar

Seiðaeldisstöð Arctic Fish er við Tálknafjörð og þar hefur á liðnum misserum verið unnið að endurbótum og stækkun.

Þegar einungis fáir mánuðir voru liðnir frá stofnun félagsins festi það kaup á sjókvíaeldisfyrirtækinu Dýrfiski, sem þá hafði hafið starfsemi í silungaeldi í kvíum í Dýrafirði. Tveir starfsmenn voru á þeim tíma að störfum við sjókvíaeldið og starfsmenn hjá Arctic Fish í heild því orðnir þrír. Félagið hefur vaxið hröðum skrefum á þessum 6 árum sem liðin eru frá því fyrstu skrefin voru tekin. Á þeim tíma sem Arctic Fish keypti Dýrfiski var fiskurinn komin í sláturstærð, magnið var ekki mikið en engu að síður vantaði vinnslu til að vinna hann og segir Sigurður að því hafi verið ráðist í kaup á vinnslu á Flateyri, Arctic Odda, sem áður hafði verið í bolfiskvinnslu.

„Við gerðum okkur ljóst frá upphafi að grunnurinn að uppbyggingu félagins lægi í því að byggja upp góða seiðaeldisstöð svo hægt væri að efla eldið enn frekar. Þegar félagið var ársgamalt keyptum við gamla seiðaeldisstöð í botni Tálknafjarðar, Norður-Botn, en þar er gott jarðnæði til uppbyggingar og við höfum aðgang bæði að heitu og köldu vatni auk þess sem nálægðin við sjóinn er kostur, m.a. þegar sjógönguseiði eru sett út. Við héldum áfram uppbyggingu í Tálknafirði og byggðum þar til viðbótar nýja seiðaeldisstöð til viðbótar þeirri sem fyrir var,“ segir Sigurður.

Félagið hóf starfsemi sína í kringum silungaeldi, tekið var eitt skref í einu og byggt upp. Sigurður segir að mönnum hafi verið í mun að læra inn á ferlið og þær aðstæður sem búið var við, en þær eru um margt sérstakar, þó svo að einhverju leyti svipi þeim til þess sem gerist í norðanverðum Noregi.

Vinnslutími vegna leyfisveitinga allt upp í 5 ár

„Þegar við hófum okkar starfsemi voru við með 200 tonn eldisleyfi sem síðar var aukið upp í 2.000 tonn. Það tekur gríðarlega langan tíma að vinna við leyfisumsóknir, mikil undirbúningsvinna að baki áður en leyfi eru gefin út. Eldisleyfi hafa mikið verið í umræðunni undanfarið og af henni má ráða að verið sé að veita fjöldann allan af leyfum en svo er ekki. Síðast var veitt sjókvíaeldisleyfi fyrir um það bil ári síðan, en það var stækkun í Arnarfirði. Við höfum verið að vinna að stækkun í Dýrafirði og sótt um leyfi til þess, vinnslutíminn á því hefur verið rúm 5 ár,“ segir Sigurður. „Til að greinin nái að byggjast upp til framtíðar og á ábyrgan hátt er mikilvægt að iðnaðurinn, sveitarfélögin og stjórnsýslan eigi sér sameiginleg markmið um uppbygginguna. Stjórnvöld í okkar nágrannalöndum hafa gefið út stefnu í þessum efnum, þ.e. hvernig standa á að uppbyggingu sjókvíaeldis.

Eldisstarfsemi félagsins hófst í Dýrafirði og þar er enn helsta starfsstöð félagsins í sjóeldinu. Sjö starfsmenn eru við þann hluta starfseminnar. Vinnslan afurða hefur verið í Ísafjarðarbæ, bæði á Flateyri og Ísafirði en á síðarnefnda staðnum er einnig skrifstofa Arctic Fish þar sem starfsmenn eru fjórir talsins. Við vinnsluna sjálfa starfa að jafnaði 20 starfsmenn. Á Tálknafirði er sem fyrr segir seiðaeldi félagsins með 8 föstum starfsmönnum. Við uppbygginu á aðstöðu þar hafa um 10 manns starfað og fleiri þegar meira er umleikis, á fjórða tug þegar mest er.

Mikil og sýnileg áhrif

„Fyrir þessi smærri þorp þar sem mest af okkar starfsemi fer fram hefur uppbygging Arctic Fish haft mikil og sýnileg áhrif. Bein störf í kringum hana eru á sjötta tuginn og ætla má að annað eins af óbeinum störfum í tengslum við starfsemina hafi skapast. Það er staðreynd að íbúum á suðurfjörðum Vestfjarða hefur fjölgað eftir að fiskeldi hófst á svæðinu, eftir umtalsverða fækkun árin á undan. Atvinnuleysi er einnig minna en áður var,“ segir Sigurður. Með áframhaldandi uppbyggingu félagsins og enn þróttmeira starfi megi gera ráð fyrir að störfum fjölgi frá því sem nú er.

Umhverfisstaðallinn mikilvægur

Arctic Fish og dótturfélög þess náðu á liðnu ári að uppfylla hinn eftirsóknarverða umhverfisstaðal, ASC; Aquaculture Stewardship Council og var fyrst íslenskra eldisfyrirtækja til að ná þeirri vottun. Sigurður segir að um sé að ræða vottun sem sé hliðstæð MSC staðli, sem er þekktasta umhverfisstaðallinn fyrir sjávarafurðir. Samtökin að baki ASC staðlinum eru óháð og ekki rekin í hagnaðarskyni. „Við erum nú komin með staðal sem byggir á rekjanleika, allt frá eggi og fiski og inn á borð hins almenna neytenda, en að baki liggur að uppfylla þarf ströng umhverfisskilyrði. Okkar eldisaðferðir og ósnortin náttúra Íslands gefa fyrirtækinu ákveðið forskot til að uppfylla þessi skilyrði. Enn sem komið er hafa ekki mörg fyrirtæki sem stunda laxfiskaeldi náð þessari vottun.“

Öflugt norskt fiskeldisfélag til liðs við Arctic Fish

Sigurður Pétursson framkvæmdastjóri Arctic fish: Við höfum verið að vinna að stækkun í Dýrafirði og sótt um leyfi til þess, vinnslutíminn á því hefur verið rúm 5 ár

Síðastliðið haust gerðist norska félagið Norway Royal Salmon, NRS hluthafi í Arctic Fish og segir Sigurður það mikilla viðurkenningu fyrir félagið. Fiskeldi sé í eðli sínu mjög fjárbindandi, einkum meðan á uppbyggingu stendur. Það hafi því verið mikilvægt að fá hina norsku kollega inn í félagið. „Við höfðum verið að leita samstarfsfélaga, aðallega hér innanlands þegar þeir hjá NRS höfðu samband við okkur að fyrrabragði síðasta sumar,“ segir hann, en ekki hvað síst er mikilvægt að fá inn í félagið þá reynslu og þekkingu sem Norðmenn búa yfir í þessum iðnaði, einkum í Norður-Noregi. NRS á nú helming hlutafjár í Arctic Fish en þeir lögðu fram aukið hlutafé við innkomu sína.

NRS varð til árið 1992 þegar 34 fiskeldisfyrirtæki í Noregi sameinuðust um stofnun sölu- og markaðsfyrirtækis fyrir eldislax sem og fleiri sameiginlega hagsmuni smærri eldisframleiðenda. Félagið hóf laxeldi árið 2006 undir eigin nafni en sér einnig enn um sölu- og markaðsmál auk stuðnings við aðildarfélög innan NRS. Fyrirtækið var skráð í kauphöll í Osló árið 2010. Félagið er eitt af þeim fiskeldisfyrirtækjum í Noregi sem er í fararbroddi í greininni, eigin laxeldisframleiðsla þess á síðastliðnu ári fór yfir 35 þúsund tonn og rúmlega tvöfalt það magn fór um dreifingakerfi þess til yfir 50 landa víða um heim.

„Það er einkum tvennt sem skiptir sköpum varðandi það að fá NRS sem hluthafa hjá okkur, það tryggir fjármögnun félagsins og við munum njóta góðs af þeirri þekkingu sem félög í fiskeldi á norðlægum slóðum hafa í áranna rás aflað sér. Meginhluti eldis NRS fer fram í norður- Noregi þar sem aðstæður eru á margan hátt sambærilegar og á Vestfjörðum. Markmið beggja félaga, Arctic Fish og NRS er að byggja upp á Íslandi, í umhverfi sem gerir okkur kleift að vera í sjálfbæru og vistvænu fiskeldi,“ segir Sigurður.

Meiri sveiflur á silungamarkaði

Hann segir að frá upphafi hafi Arctic Fish gengið ágætlega að selja gæðavöru, eldisafurðir af Vestfjörðum, „en vissulega skiptast í þessum iðnaði eins og annars staðar á skin og skúrir.“ Helsta áfallið var þegar markaðir lokuðust í Rússlandi, þó svo að félagið hefði ekki verið að selja beint inn á þann markað hafði lokunin áhrif víða enda um að ræða stærsta markaðinn fyrir silung í heiminum. „Það varð á skömmum tíma mikið verðhrun á silungi og hafði að auki tímabundin áhrif á verð á laxi, á þeim vettvangi náðist að rétta fljótt úr kútnum, sá markaður hefur undanfarin ár verið mjög sterkur,“ segir Sigurður. Nokkur munur sé á markaði fyrir lax og silung, sveiflur eru meiri á markaði fyrir silung og er það ein megin ástæða þess að félagið leggur nú áherslu á að byggja upp laxeldi.

Stefna á frekari uppbyggingu fyrir vestan

Arctic Fish er að sækja um 8 þúsund tonna laxeldisleyfi í Ísafjarðardjúpi. Það er nú með 4 þúsund tonna starfsleyfi fyrir regnbogasilung en áformar að skipta yfir í lax. Á næstu árum er einnig fyrirhugað að setja út seiði í Patreksfirði og Tálknafirði og eru leyfisveitingar þar um á lokavinnslustigi. Með því færir félagið út kvíarnar, en sjókvíaeldið fer nú einungis fram í Dýrafirði. Byggð hefur verið upp endurnýtingastöð fyrir seiðaeldi félagsins í Tálknafirði og segir Sigurður að ef leyfismálin varðandi Ísafjarðardjúp klárist á næstu misserum ætti afkastageta í seiðaeldinu að aukast þannig að mögulegt væri að hefja eldi í Ísafjarðardjúpi jafnvel á næsta ári. „Frekari leyfisveitingar eru forsenda fyrir því að fyrirtækið nái ákveðinni stærðarhagkvæmni og verði samkeppnishæft á afurðamörkuðum. Við erum nú þegar með talsverða starfsemi á Vestfjörðum en höfum hug á að auka þar vel við, stefnum að því að fjölga störfum og fara út í meiri fjárfestingar að því gefnu að leyfisumsóknir félagsins fái jákvæða afgreiðslu,“ segir Sigurður.

Deila: