Flotinn verður sífellt sparneytnari

Deila:

Olíunotkun íslenska skipaflotans hefur minnkað jafnt og þétt á þessari öld og mögulegt að í framtíðinni geti nýir orkugjafar komið í stað skipaolíunnar. Þetta segir Guðbergur Rúnarsson, verkfræðingur hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi í viðtali í Viðskiptamogganum í dag.

Guðbergur Rúnarsson 2

Að sögn Guðbergs hefur olíunotkun farið minnkandi í öllum skipaflokkum, og á sama tíma hefur olíunotkun við veiðar, mælt á hvert kílógramm af afla, dregist saman. „Ástæðurnar fyrir þessari þróun eru nokkrar. Fyrst ber að nefna að á 10. áratugnum var meiri sókn á miðin, og því minna fiskað á hverja sóknareiningu. Þegar líða tók á 21. öldina batnaði kvótastýring í þorski og fleiri tegundum, og með því urðu veiðar markvissari og olíunotkun minni að sama skapi,“ útskýrir Guðbergur. „Samhliða þessu er tæknin að breytast og gömlum skipum skipt út fyrir ný og sparneytnari. Einnig hafa orðið miklar framfarir í hönnun veiðarfæra og t.d. troll í dag mun opnari en þau voru fyrir 10 árum og hægt að stýra hlerunum betur svo að þeir dragist ekki eftir botninum með tilheyrandi álagi á vélar skipanna. Veiðarfærin hafa líka stækkað og veiða betur, sem stuðlar að minni olíunotkun.“

Er olíusparnaðurinn verulegur og segir Guðbergur að reikna megi með að frá 1997 til 2016 hafi olíunotkun flotans farið úr um 248 þúsund tonnum niður í 135 þúsund tonn. Er ekki ósennilegt að fyrir greinina í heild þýði þessi minnkaða olíunotkun sparnað upp á u.þ.b. milljarð króna árlega ef miðað er við olíunotkunina eins og hún var mest árið 1997. „Óneitanlega hefur hækkun olíuverðs líka verið mikill áhrifavaldur. Um miðjan 10. áratuginn kostaði olíufatið í kringum 11 dali en var komið yfir 120 dali, og vel það, á fyrsta áratug þessarar aldar. Kostar hráolían í dag um 48 dali fatið,“ segir Guðbergur. „Hefur hækkað eldsneytisverð knúið útgerðir til að leita nýrra leiða við hönnun skipanna og sjáum við afraksturinn í nokkuð óvenjulegu útliti margra nýjustu skipa íslenskra útgerðarfélaga, með vélar sem eru minni en áður.“

Verður það vetni, rafmagn eða metanól?

Olíunotkun fiskiskipaflotans berst iðulega í tal þegar rætt er um koltvísýringslosun og jarðefnaeldsneytisnotkun Íslendinga. Margir binda vonir við að rafmagn, vetni, metanól og aðrir innlendir og umhverfisvænir orkugjafar geti komið í staðinn fyrir bensínið og díselolíuna sem bíleigendur dæla í dag á tankinn, og að skipin geti fylgt þeirri þróun sem á sér stað hjá einkabílunum. Guðbergur segir ýmsar leiðir hafa verið nefndar til að innleiða notkun nýrra orkugjafa í sjávarútvegi en fiskiskipin nota um þriðjunginn af öllu jarðefnaeldsneyti sem flutt er inn til landsins.

Segir Guðbergur ljóst að nota þarf nýja orkugjafa ef Íslandi á að takast að standa við ýmsa alþjóðlega umhverfissamninga sem landið á aðild að. „Sennilega mun fyrsta breytingin felast í blöndun lífdísils í skipaolíuna og ætti 5% lífdíselhlutfall að vera í lagi fyrir flestar gerðir véla, og jafnvel hægt að auka hlutfallið upp í allt að 20%. Meiri blöndun en það þýðir að gera þarf sérstakar ráðstafanir, s.s. breytingar á síum og á ræsingu.“

Lífdíselolíuna þarf ekki endilega að flytja inn og segir Guðbergur að gæti verið hagkvæmt að framleiða t.d. lífdísil úr íslenskri repju, líkt og tilraunir bænda í Mýrdalnum hafa sýnt. „En vandinn er sá að ekki er nóg að bændurnir rækti repjuna, heldur þarf líka verksmiðju til að framleiða lífdísil úr hráefninu. Verður líka að huga að því að ræktunin fari rétt fram, og noti t.d. ekki áburð sem er framleiddur með orku sem kemur frá brennslu jarðefnaeldsneytis ef ætlunin er að draga úr jarðefnaeldsneytisnotkun.“

Metanól gæti líka komið til greina en hefur ákveðna galla sem Guðbergur varar við. „Metanól er nú þegar notað í bíla- og farþegaferju sem fer á milli Gautaborgar og Kiel og hefur reynst mjög vel. En vandinn við metanól er að um hættulegt efni er að ræða. Metanól er mjög létt efni, rokgjarnt, lyktarlaust og eldfimt og mjög eitrað.“

Vetni gæti fræðilega nýst sem orkugjafi í sjávarútvegi en Guðbergur segir að langt sé í að vetnistæknin nái því stigi að henta um borð í skipum. „Aftur á móti erum við þegar farin að sjá framleiðendur smíða skip sem knúin eru með rafmagni, þ.e. með rafmagnsmótor frekar en díselmótor sem snýr skrúfunni. Rafmagnið ætti að geta hentað fyrir dagróðrarbáta, en þá er lítil dísil-ljósavél um borð sem getur hlaðið rafgeymana ef á þarf að halda. Bátana má hlaða við bryggju yfir nóttina og þarf ekki að ráðast í aðrar innviðabreytingar en að koma fyrir hleðslustöðvum sem tengja má bátana við.“

Deila: