Álagning veiðigjalds ríflega tvöfaldast

Deila:

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur birt reglugerð um veiðigjald fyrir komandi fiskveiðiár. Miðað við áætlað aflamark, verður gjaldið um það bil 10,5 til 11,0 milljarðar króna, sem væri hækkun um 6 milljarða frá yfirstandandi fiskveiðiári, eða ríflega tvöföldun. Hækkun veiðigjalds vegna þorsks nemur 107%, ýsu 127% og makríls 18%.

Reikniregla veiðigjalds fyrir fiskveiðiárið 2017/2018 byggist á gögnum Hagstofu Íslands frá árinu 2015. Það gerir það að verkum að gjaldið endurspeglar ekki rekstrarskilyrði greinarinnar á hverjum tíma. Því getur hagnaður verið að minnka á sama tíma og veiðigjald er að hækka, og öfugt. Þannig háttar til núna; álagning veiðigjalds miðast við gott rekstrarár, en gjaldið kemur til greiðslu þegar mun verr árar. Rekstrarskilyrði í sjávarútvegi hafa versnað og ekki er útilokað að álagning veiðigjalds fyrir næsta fiskveiðiár muni reynast einhverjum smærri og meðalstórum útgerðum ofviða. Slíkt gæti aukið samþjöppun í sjávarútvegi.

„Þetta er mikil hækkun sem mun koma hart niður á fjölmörgum útgerðum og þær eru misjafnlega í stakk búnar til að standa undir gjaldinu. Hjá sumum útgerðum getur hækkunin verið allt að fjórföld. Álagningin byggist á gömlum afkomutölum, eins og undanfarin ár, en aðstæður hafa breyst mjög til hins verra á liðnum misserum; gengi krónunnar hefur styrkst og tekjur gjaldeyrisskapandi fyrirtækja dregist verulega saman. Á sama tíma hefur kostnaður í íslenskum krónum, eins og vegna aðfanga og launa, hækkað mikið,“ segir Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS í færslu á heimasíðu samtakanna.

Samkvæmt lögum greiða lögaðilar fiskiskipa veiðigjald, en þeir eru nú hátt í eitt þúsund. Beint samband er á milli hagnaðar fyrirtækja og veiðigjalds. Greiðslurnar fyrir næsta fiskveiðiár nema þannig um þriðjungi af heildarhagnaði útgerða árið 2015. Þá er hagnaður í fiskvinnslu einnig reiknaður inn í veiðigjald. Það leiðir til þess að hluti þeirra sem greiðir veiðigjald, greiðir það vegna hagnaðar sem myndast í óskyldum fyrirtækjarekstri. Við bætast svo aðrar opinberar greiðslur, eins og tekjuskattur, tryggingagjald, olíugjald og aflagjöld.

 

Deila: