Skaginn 3X setja uppsjávarverksmiðju um borð í skip

Deila:

Skaginn 3X er í viðamiklum verkefnum við niðursetningu ýmis konar búnaðar um borð í fiskiskip. Þar má nefna þrjú ný ísfisk skip HB Granda og eitt frá Fisk Seafood, en verkefnin eru víðar og á erlendri grundu. „Nú erum við að vinna í verkefni fyrir samstæðu sem heitir Cornelis Vrolijkog, fyrirtæki í eigu þess sem heitir France Pélagique og er í Holllandi. Þeir eru að láta smíða fyrir sig nýtt skip sem verður í veiðum á uppsjávarfiski. Þar erum við í fyrsta sinn að að taka álíka tækni eins og og er til dæmis í Eskju og koma því fyrir um borð í skipi,“ segir Jón Birgir Gunnarsson, yfirmaður markaðs- og sölumála hjá Skaganum 3X.

„Þar erum sem sagt að fara að stærðarflokka og tegundagreina eins mikið og hægt er mjög blandaðan  afla sem er  tekinn um borð í skipið og settur í rsw-kælitank fyrir vinnslu. Þá er hann stærðarflokkaður og greindur með tölvusjón, bæði eftir stærð og tegund og fer þaðan í sjálfvirka pökkun, sjálfvirka frystingu, pökkun og röðun á bretti og síðan flutning  niður í lest.

Þetta er gríðarlega stórt og mikilvægt verkefni með miklu af nýjungum. Í því felst líka áskorun í því að taka eitthvað sem er þekkt og hefur gengið upp í landi og koma því um borð í skip við miklu erfiðari og þrengri aðstæður. Veiðarnar verða stundaðar niðri við Afríku og aflinn mjög blandaður og þeir kalla þetta Atlantic mix.

Við sjáum þetta líka í verkefni sem við erum að vinna við austurströnd Rússlands. Þangað fóru um tíu manns frá okkur til Kúrileyja, sem er mjög afskekkt svæði. Þar settu þeir upp stærðarflokkara og kerfi í kringum hann fyrir þær tegundir sem  þeir eru með þar, sardínur og fleira. Það er svolítið gaman að sjá hve víða íslenska þekkingin er farin að breiða úr sér, þegar við erum komir á afskekktar eyjar í Kyrrahafinu,“ segir Jón Birgir. „Það er mikið að gera og mörg verkefni í pípunum. Það er sóknarhugur í okkur.“

 

Deila: