Fiskuðu eins og vinnslan leyfði

Deila:

Frystitogarinn Höfrungur III AK kom til hafnar í Reykjavík í fyrrinótt eftir 28 daga veiðiferð. Afraksturinn í veiðiferðinni var samtals tæplega 1.000 tonn af fiski upp úr sjó en hluta aflans var landað í millilöndun 19. mars sl.

,,Við einbeittum okkur að djúpslóðinni við SV-land. Fórum lengst austur á Selvogsbanka, austur undir Surtsey, og vestur á Litlabanka og út í myrkur eins og eins menn nefna veiðisvæðið. Mest var horft eftir djúpkarfa og það var alveg þokkalegur gangur í djúpkarfaveiðinni. Algengur meðafli með djúpkarfanum er gulllax og mér virðist á stærðinni að það séu að koma nýir og nokkuð sterkir árgangar inn í veiðina,“ segir Haraldur Árnason skipstjóri í samtali á heimasíðu HB Granda.

Það þarf ekki að koma á óvart að þorskur hafi verið í aðalhlutverki á Selvogsbankanum á þessum árstíma en þar fékkst einnig ufsi. Ýsan var ekki gengin inn á bankann að sögn Haraldar.

,,Það er nóg af þorski á slóðinni en reyndar kom hann í minna mæli út, þar sem við vorum að veiðum, en við eigum að venjast. Við lögðum okkur ekki eftir ufsanum en hann fékkst sem meðafli og þá einkum með þorskinum. Heilt yfir þá er ég ánægður með aflabrögðin. Við fiskuðum eins og vinnslan leyfði og það var nóg að gera hjá mannskapnum. Það fer töluverður tími í að  ganga frá hausum, sem henta til þurrkunar, hrognum og lifur,“ sagði Haraldur Árnason.

Deila: