Leggja til 5.500 tonna grásleppukvóta
Hafrannsóknastofnun leggur til að heildaraflamark grásleppu á fiskveiðiárinu 2017/2018 verði 5.487 tonn. Hafrannsóknastofnun leggur jafnframt til að upphafsaflamark fiskveiðiársins 2018/2019 verði 1.557 tonn.
Stofnunin mun að lokinni stofnmælingu 2019 veita endanlega ráðgjöf um heildaraflamark fiskveiðiársins 2018/2019. Að því gefnu að veiðum verði stýrt með sama fyrirkomulagi og verið hefur, leggur Hafrannsóknastofnun til að útgefinn dagafjöldi taki mið af fjölda báta sem munu taka þátt í veiðunum. Jafnframt leggur stofnunin til að aukin áhersla verði lögð á skráningu meðafla og eftirlit með brottkasti við grásleppuveiðar.
„Ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar um endanlegt heildaraflamark fyrir grásleppu fiskveiðiárið 2017/2018 byggir á stofnvístölu úr stofnmælingu botnfiska í mars 2018. Niðurstöður mælinga liggja nú fyrir og reyndist vísitalan vera 6,9 sem er töluvert lægra gildi en mældist á sama tíma í fyrra (8,2). Stofnvísitala grásleppu hefur sveiflast mikið milli ára og því er mikilvægt að afli hvers árs taki mið af stofnstærð sama árs, frekar en ársins á undan. Hins vegar, vegna óvissu í mælingunum, er tekið tillit til vísitölu fyrra árs með vægi 30% á móti nýrri mælingu með vægi 70% við útreikning ráðlagðs hámarksafla,“ segir í frétt frá Hafrannsóknastofnun.