Kröftug kynning á saltfiski á Spáni

Deila:

Markaðssamstarf í kynningu á þorski í Suður Evrópu hefur staðið frá árinu 2013. Í aðdraganda páskanna var viðamikil kynning í smásöluverslunum á Spáni í samstarfi við La Sirena frystivörukeðjuna og einnig á saltfiskmörkuðum í Barcelona í samstarfi við útvatnarasamtökin í Katalóníu. Frá þessu er sagt á heimasíðu ábyrgra fiskveiða, responsiblefisheries.is

Kynning framundan á veitingastöðum í Bilbao

Níu veitingastaðir í Bilbao munu bjóða upp á íslenskan þorsk á matseðli sínum í tvær vikur, frá 24. apríl til 6. maí nk. Markmiðið er að treysta tengslin við staðina og kokkana og leggja áherslu á gæði og íslenskan uppruna.

Framtakið verður kynnt á blaðamannfundi þann 24. apríl í hinum sögufræga Mercado La Ribera í miðbæ Bilbao. Auk þess verður kynning og veitingastaðirnir gefa almenningi kost á að smakka réttina á Plaza Indauxtu torginu í miðborg Bilbao dagana 26. og 27. apríl. Verkefnið er unnið með aðkomu ræðumanns Íslands í Bilbao og í samstarfi við borgaryfirvöld og almannatengslaskrifstofu á svæðinu.

Heimsóknir í kokkaskóla

Einn af lykilþáttum verkefnisins er að heimsækja kokkaskóla og hafa meira en 1000 nemendur í matreiðslu og veitingageiranum í Suður Evrópu, fengið kynningu á leyndarmálinu á bak við gæði íslenska fisksins. Einnig koma meistarakokkar og kynna matreiðslu og veita nemendum innblástur með fjölbreyttum hætti. Í lok apríl verða þrír skólar heimsóttir í Bilbao og nágrenni.

Saltfiskur á páskum

Mikill áhugi er á kynningarsamstarfi úti á mörkuðunum, einkum í aðdraganda páskanna á Spáni. Staða íslenska þorsksins (saltfisks) er mjög sterk í Katalóníu eins og viðhorfsrannsóknir okkar sýna og sölutölur segja til um. Gott samstarf hefur verið í kynningu við Útvatnarasamtökin og DAMM bjórfyrirtækið og er þetta í þriðja sinn sem samstarfið er undir merkjum Ruta del Bacalao í Barcelona. Þrjátíu veitingastaðir buðu upp á saltfisk og bjór á vægu verði í aðdragandanna páskanna auk þess sem Bacalao de Islandia var með smakk hjá tíu aðilum á matarmörkuðum alla laugardaga í mars. Mikil umfjöllun fjölmiðla varð um þetta samstarf enda haldið blaðamannaboð til að kynna samstarfið fyrirfram.

Tuttugu verslanir spænsku frystivörukeðjunnar La Sirena buðu upp á saltfisksmakk og var íslenskur þorskur sýnilegur í verslunum, bæklingum, á samfélagsmiðum og fréttabréfi frá La Sirena. Viðskiptavinir áttu möguleika á að vinna ferð til Íslands í boði Bacalao de Islandia líkt og í fyrra, en þetta er í annað skiptið sem samstarf með þessum hætti á sér stað í aðdraganda páskanna.

Langtímasamstarf fyrirtækja í framleiðslu og sölu 

Samstarf Íslandsstofu og aðila í framleiðslu og sölu saltaðra þorskafurða hófst árið 2013. Sterkur kjarni fyrirtækja hefur verið með frá upphafi, ávallt í kringum 20 fyrirtæki. Auk framleiðenda og sölufyrirtækja er þjónustufyrirtækjum boðið að taka þátt í verkefninu og hefur Marel nýlega komið til liðs við verkefnið, en einnig eru Samhentir og Samskip með í verkefninu. Þátttökufyrirtækin móta verkefnið í samstarfi við Íslandsstofu, fá markaðsefni og rannsóknir verkefnisins og njóta þannig ávinnings af þátttökunni.

 

Deila: