Verður þorskkvótinn skertur?

Deila:

Hafrannsóknastofnun kynnir aflaráðgjöf fyrir komandi fiskveiðiár nk. miðvikudag 13. júní.  Eins og endranær ríkir eftirvænting eftir ráðgjöfinni, hvar verður aukið við og í hvaða tegundum mælt með minni veiði. Fjallað er um þetta á heimasíðu Landssambands smábátaeigenda og segir þar svo:

„Flestir beina sjónum sínum af þorskinum, enda langverðmætasta tegundin sem veidd er hér við land.  Á árinu 2017 var heildaraflaverðmæti í íslenskri landhelgi 97 milljarðar þar af var þorskur 46 milljarðar eða rúm 47%.

Í skýrslu Hafrannsóknastofnunar í júní í fyrra var því spáð að veiðistofn þorsks mundi halda áfram að stækka, færi úr 1.356 þús. tonnum í 1.444 þúsund tonn, upp um 6,4%.

Eftir að hafa lesið tilkynningu og skýrslu stofnunarinnar frá 16. apríl má hins vegar búast við að spáin gangi ekki eftir.  Þar er greint frá helstu niðurstöðum úr stofnmælingum botnfiska (rallinu) sem fram fór 26. febrúar – 21. mars.  Um stofnvísitölu þorsks segir eftirfarandi:

„Stofnvísitala þorsks er 5% lægri en meðaltal áranna 2012-2017, þegar vísitölur voru háar.“

Segja má að þetta sé nokkuð sérstök framsetning þar sem engar tölur eru nefndar.  Við að rýna í tölur úr grafi í skýrslu sem fylgir fréttinni, bendir allt til þess að vísitalan nú hafi lækkað um hvorki meira né minna en fimmtung frá mælingum 2017.

Lækki veiðistofn jafnmikið og vísitalan bendir til er hætt við að leyfilegur heildarafli minnki um 30 þúsund tonn, eða hámark þess sem má lækka milli ára samkvæmt sveiflujöfnun í aflareglu.  Jafngildir 11%.

Vonandi að fundurinn í næstu viku færi okkur betri tíðindi heldur en hér er velt upp.“

 

Deila: