Nú skal viðhaldinu sinnt

Deila:

Ísfisktogarinn Gullver NS kom til Seyðisfjarðar sl. þriðjudag og landaði 82 tonnum. Aflinn var mest þorskur, karfi og ýsa. Þórhallur Jónsson skipstjóri segir í samtali á heimasíðu Síldarvinnslunnar, að túrinn hafi verið stuttur og drjúgur hluti hans hafi farið í að leita að ufsa án mikils árangurs. Karfinn hafi síðan fengist í Berufjarðarálnum og þorskurinn og ýsan ofan við Örvæntingarhorn.

Strax að löndun lokinni hélt Gullver til Hafnarfjarðar þar sem viðhaldi á skipinu verður sinnt. Grétar Örn Sigfinnsson, útgerðarstjóri Síldarvinnslunnar, segir að reiknað sé með að unnið verði að viðhaldinu í góðar tvær vikur. Aðalvél skipsins verður tekin upp, kælikerfi í lestum endurnýjað að hluta og fleiri verkefni eru á dagskrá. Gera má ráð fyrir að Gullver haldi á ný til veiða um miðjan september.
Gullver NS í Hafnarfjarðarhöfn. Ljósm. Grétar Örn Sigfinnsson

 

 

Deila: