Venus aflahæstur á loðnunni
Loðnuveiðum á þessari vertíð er nú endanlega lokið og var síðasta skipið til að landa afla Hoffell SU. Það landaði síðasta skammti sínum, 900 tonnum, í lok síðustu viku. Athygli vekur að síðasti loðnufarmurinn sé nú tekinn í Hrútafjarðarál, en ekki fyrir vestan. Leyfilegur hámarksafli vertíðarinnar, um 185.000 tonn náðist allur.
Aflahæsta skipið á loðnuvertíðinni var Venus NS með 18.158 tonn. Næst koma Vilhelm Þorsteinsson EA með 16.051 tonn, þá Víkingur AK með 15.972 tonn. Fjórða hæsta skipið var Börkur NK með 14.148 tonn, þá Heimaey VE með 13.741 tonn, síðan Beitir NK með 13.248 og loks Sigurður VE með 10.777 tonn.
Önnur skip voru með afla undir 10.000 tonnum, en alls lönduðu 19 skip loðnu á þessari vertíð.