Bolfiskvinnslan bjargaði atvinnulífinu
,,Ég hugsa til þess með skelfingu ef við hefðum ekki haft þessa bolfiskvinnslu. Eins og mál hafa skipast í vetur hefði starfsfólkið í uppsjávarfrystihúsinu haft sama og ekkert að gera frá því að síldarvertíð lauk í nóvember og þar til að makrílvinnsla hefst í júlí nk. ef þorskvinnslunnar hefði ekki notið við,“ segir Magnús Róbertsson, vinnslustjóri HB Granda á Vopnafirði í samtali á heimasíðu HB Granda.
Stjórn HB Granda ákvað 2016 að byggja upp bolfiskvinnslu á Vopnafirði í því skyni að draga úr sveiflum og skapa meiri festu í fiskvinnslu félagsins á staðnum. Félagið átti húsnæði undir starfsemina, þar sem að frystihús Tanga var starfrækt á sínum tíma, og ákveðið var af nota það undir vinnslu á ferskum þorskafurðum.
,,Húsið var allt tekið í gegn og öllu var skipt út. Gólfin eru ný og raflagnir voru endurnýjaðar frá grunni. Allur vinnslubúnaður og tæki eru ný. Sjálfur vinnslusalurinn er á jarðhæð, ýmiss tækjabúnaður er í kjallara og starfsmannaaðstaða á efri hæð,“ segir Magnús en að hans sögn var allt klárt fyrir fulla vinnslu í apríl í fyrra.
,,Við erum með 65 til 70 manns sem eru fastráðnir í uppsjávarfrystihúsinu og þótt vinnsla liggi þar niðri þá er alltaf þörf fyrir nokkurt vinnuafl við þrif og viðhald. Í þorskvinnslunni vinna svo um 35 manns en með þessu móti hefur okkur tekist að halda öllu fastráðna starfsfólkinu á launaskrá árið um kring. Það er mjög mikilvægt því þetta er fólk með mikla reynslu og þekkingu. Sennilega tækist okkur alltaf að manna uppsjávarfrystihúsið en við gætum ekki gengið að því vísu að fá alltaf besta fólkið til starfa.“
Unnið úr 20-23 tonnum á dag
Að sögn Magnúsar er í bolfiskvinnslunni eingöngu unnið úr hráefni frá togurum HB Granda.
,,Við fáum þorskinn með flutningabílum, aðallega frá Reykjavík en í vetur var nokkuð um að skipin lönduðu á Ísafirði og við fengum þorsk líka þaðan. Í vinnslunni hér á Vopnafirði höfum við yfirleitt unnið úr um 20 til 23 tonnum á dag og afurðirnar eru ferskir þorskhnakkar og fersk bakflök. Þetta er sama vinnsla og í Norðurgarði í Reykjavík enda er markaðurinn sá sami. Við höfum þann háttinn á að vinna tíu tíma á dag fjóra daga vinnuvikunnar en á föstudögum liggur vinnsla niðri. Ástæðan fyrir þessu er sú að við náum ekki skipinu sem fer frá Reyðarfirði á föstudögum en auk reglulegra skipaflutninga þaðan nýtum við ferjuna Nörrönu sem fer vikulega frá Seyðisfirði,“ segir Magnús Róbertsson.