Vilja 12 veiðidaga í mánuði að lámarki

Deila:

„Strandveiðifélagið Krókur – félag smábátaeigenda í Barðastrandasýslu, skorar á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra; Kristján Þór Júlíusson að stíga skrefið til fulls, og tryggja nægar aflaheimildir til strandveiðikerfisins svo að með nýtilkomnu lagafrumvarpi (þingskjal 611 – 429. mál), megi veiða 12 daga í mánuði, alla 4 mánuðina (maí – ágúst).“

Þetta kemur fram í ályktun frá stjórn félagsins of segir þar ennfremur.

„Strandveiðifélagið Krókur vill einnig skora á ráðherra að afnema takmarkanir á vikudögum og „rauðum“ dögum þar sem 4 dagar í viku eru nægar takmarkanir og að leyfa löndun á ufsa (sem teljist ekki til hámarksafla), og að ekki þurfi að landa honum sem VS afla.“

Formaður Strandveiðifélagsins Króks er Einar Helgason.

Í ályktuninni er vísað til frumvarps atvinnuveganefndar og er Lilja Rafney Magnúsdóttir flutningsmaður þess. Frumvarpið er svo hljóðandi: 1. gr.

Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 6. gr. a skal ráðherra til 31. ágúst 2018 takmarka strandveiðar við 12 veiðidaga fyrir hvert skip, innan hvers mánaðar, mánuðina maí, júní, júlí og ágúst. Fiskistofa getur með auglýsingu í Stjórnartíðindum stöðvað strandveiðar þegar sýnt er að heildarafli strandveiðibáta fari umfram það magn, sem ráðstafað er til strandveiða samkvæmt reglugerð nr. 607/2017 um veiðar í atvinnuskyni fiskveiðiárið 2017/2018. Heimilt er hverju strandveiðiskipi að landa ufsa sem VS-afla, og telst sá afli ekki til hámarksafla skv. 5. tölul. 5. mgr. 6. gr. a.
2. gr.

Lög þessi öðlast þegar gildi og gilda til og með 31. ágúst 2018.

Deila: