Norskir útvegsmenn hafna makrílráðgjöf ICES

Deila:

„Ráðgjöf Alþjóða hafrannsóknaráðsins, ICES, um makrílveiðar grefur undan áliti þess sem ráðgjafarstofnunar,“ segir Audun Maråk, framkvæmdastjóri samtaka norskra útgerðarmanna, Fiskebåt. Þetta segir hann um ráðgjöf ICES um að helminga heimildir til makrílveiða á næsta ári. Hann segir þetta dapurlegt fyrir ráðið.

„Þegar staðan er þannig að rannsóknaleiðangurinn, sem er umsvifamikill alþjóðlegur leiðangur, sýnir vöxt í stofnstærðinni, leggur ICES til umtalsverðan niðurskurð veiðiheimilda frá því hámarki sem áður hafði verið fært niður og endurskoðað. Tillögurnar hljóða upp á 560.000 tonn sem er niðurskurðum um 35% miðað við endurskoðaða ráðgjöf ICES fyrir 2017 og þar með helmings niðurskurð á heildarveiðinni.

Rök ICES fyrir ráðgjöfinni eru fyrst og fremst byggð á hrognaleiðangri og veiðum umfram ráðgjöf. Ráðið hefur ennfremur efasemdir um nýliðun og hvort stofninn er að færa útbreiðslu sína til norðurs en ekki að stækka.“

Fiskebåt  hefur ásamt norsku hafrannsóknastofnuninni áður bent á veikleika í hrognaleiðöngrum, sérstaklega vegna þess að þeir hafa ekki farið yfir nægilegt útbreiðslusvæði og standi ekki nógu lengi yfir. Samtökin draga ennfremur í efa aðrar skýringar ICES á ráðgjöfinni, sem er ofveiði og að aukin útbreiðsla þýði ekki vöxt í stofninum heldur aðeins tilfærslu í útbreiðslu.

„Stofninn hefur vaxið þrátt fyrir veiðar umfram ráðleggingar undanfarin ár. Þetta hafa bæði ICES og norska Hafrannsóknastofnunin bent á. Ég vil minna á það sem vísindamenn Hafrannsóknastofnunar sögðu á ársfundi útvegsmanna í desember í fyrra,“ segir Maråk; „Það sem við sjáum er að nýliðun í makrílnum hefur verið sérlega góð. Þegar stofninn vex þarf hann meira æti og eykur því útbreiðslusvæði sitt.“ Útvegsmenn deila þessari skoðun með vísindamönnunum.

Niðurstaða ICES er að stofninn hafi ekki vaxið, heldur aðeins flutt sig yfir á ný hafsvæði. Útbreiðslan hafi ekki aukist í þeim mæli sem ráð var fyrir gert og því sé líklegt aðeins sé um tilfærslu að ræða. Þá segir ráðið að mikil óvissa felist í ráðleggingunum.

„Fyrir þá sem treysta á ráðgjöfina og fyrirsjáanlega þróun verður það erfitt þegar ráðleggingarnar frá fiskifræðingunum ljóða eins og nú. Fiskebåt mun fara vandlega yfir ráðleggingarnar og leggja fram sitt eigi mat að því loknu.,“ segir hann.

Hann bendir ennfremur á að samkomulagið milli ESB, Færeyja og Noregs feli í sér stöðugleikareglu sem þýði að leyfilegur heildarafli hækki hvorki né lækki um meira en 20% milli ára, svo lengi sem hrygningarstofninn sé yfir þremur milljónum tonna. Það skipti miklu máli undir þessum kringumstæðum.

Deila: