Kaffikona af lífi og sál og kaupfélagsstjóri líka

Deila:

 Sé hjarta Vinnslustöðvarinnar á annað borð til á einum ákveðnum stað er það í kaffistofu starfsmanna í botnfiskvinnslu. Þar ræður Eydís ríkjum í fjölþjóðlegu samfélagi, eldar hafragraut á morgnana, hellir upp á kaffi, lætur sér annt um nýliða og gantast við gesti og gangandi. Hún rekur meira að segja verslun líka og sér starfsmönnum fyrir ýmsu sem þá kann að vanhaga um í dagsins önn. Einmitt þarna slær hjarta Vinnslustöðvarinnar daginn langan og Eydís fylgist með púlsinum. Rætt er við hana á heimasíðu Vinnslustöðvarinnar.

„Ég er sveitastelpa úr Hrunamannahreppi og kom fyrst til Vestmannaeyja á vertíð í snælduvitlausu veðri í janúar og vann í Nöf. Fór svo heim en kom aftur á vertíð ári síðar, vann þá í Ísfélaginu. Eftir það bjó ég á Flúðum í sjö ár en flutti til Eyja 1997 til að vinna í Vinnslustöðinni og enn er ég hér. og hef verið hér síðan þá. Að vísu fór ég til Hafnarfjarðar og var í 20 mánuði en leiddist dvölin mjög. Ég saknaði Eyjanna sárlega og var ósköp fenginn að koma aftur hingað.

Í Vinnslustöðinni vann ég fyrst við síldarpökkun en síðan í loðnu og fiskvinnslu af öllu tagi en byrjaði að aðstoða á kaffistofunni um aldamótin og tók síðar alveg við rekstri hennar. Starfsheitið kallast flokksstjóri en ég kalla mig einfaldlega kaffikonu.“

Hafragrautur, kaffi og verslunarrekstur

Vinnudagur Særúnar Eydísar Ásgeirsdóttur er fjölbreyttur og erilsamur. Hún hefur hafragraut tilbúinn kl. 8:30 á morgnana og sér um það sem til þarf í kaffitímum af hálfu fyrirtækisins. Ekkert matarstúss er í hádeginu, þá koma sumir og setjast niður í kaffistofunni með nestið sitt. Aðrir skreppa heim í mat.

Eydís sér um að kaupa inn allt það sem fólk þarf á að halda á starfsmannasvæðinu og rekur auk þess litla verslun þar sem varningi er haganlega fyrir komið í hillum í lítilli kompu við hliðina á kaffistofunni. Þar eru peysur, buxur, sokkar, stígvél, einnota hanskar og fleira sem kemur sér vel fyrir starfsmenn að vita af innan seilingar ef þeir hafa til dæmis mæta illa klæddir til vinnu og skjálfa í kulinu. „Kaupfélagsstjórinn“ lumar þá á tilheyrandi klæðum í búðinni sinni og fólk fær yl í kropp á nýjan leik.

Kallar sig Big mama!

„Blessaður vertu, það átta sig ekki allir á því fyrr en á reynir að ekki þýðir að mæta í gammósíum í vinnuna og ætla sér að vinna þannig klæddur í kulda eða jafnvel í frystiklefa!

Reyndar er það svo að ég er tengiliður fyrirtækisins við nýtt starfsfólk sem hingað kemur og þarf á aðstoð að halda. Fimmtán ára krakkar í upphafi sumarvinnu eiga margt ólært og útlendingar ekki síður. Þeir þurfa leiðbeiningar og aðstoð.

Hér eru margir Pólverjar og í seinni tíð hafa komið Portúgalar og nú síðast nokkrir Slóvenar. Ég segist vera Big mama og þeir skilja það strax! Einn Portúgalinn kallar mig alltaf Mammy, það finnst mér gaman og notalegt.

Fljótlega venst að hafa samskipti við útlendingana. Ég vil að þeir læri nafnið mitt og í staðinn læri ég nöfnin þeirra og gefst ekki upp fyrr en það tekst.“

Gamalreyndir kvaddir með virktum

„Venjulega koma hingað 70-80 manns í mat og kaffi á morgnana. Hér er líf og fjör og stundum gerum við okkur dagamun, eins og til dæmis núna í september í tilefni af því að Vinnslustöðin hafði náð því að frysta tíu þúsund tonn af makríl á vertíðinni.

Stundum eru pítsuveislur og stundum grillum við pylsur. Svo kveðjum við þá með virktum sem hætta eftir langan starfsferil hjá fyrirtækinu. Þá er við hæfi að hafa tertur og fleira gott með kaffinu.“

Svo er stelpan úr Hrunamannahreppi þotin á braut. Starfsmaður er mættur til að ná sér í stígvél í versluninni. Þá breytist kaffikona í kaupfélagsstjóra á augabragði eins og ekkert sé sjálfsagðara.

 

Deila: