Makrílvinnslan gengur vel
Beitir NK kom til Neskaupstaðar í fyrrinótt með 600 tonn af makríl til vinnslu. Er þetta síðasti farmurinn sem unninn verður fyrir verslunarmannahelgarfrí. Tómas Kárason, skipstjóri á Beiti, segist vera bjartsýnn varðandi framhald makrílvertíðarinnar.
„Þetta er miklu betra en í fyrra og það virðist vera meiri makríll innan lögsögunnar en þá var. Nú eru bátarnir að fiska bæði hér austurfrá og eins við Vestmannaeyjar. Við vorum allan þennan túr austur úr Hvalbaknum og það var sífellt að ganga þarna makríll. Það gekk þó heldur illa að veiða yfir nóttina en betur veiddist á daginn. Við makrílveiðarnar er þetta oft ýmist í ökkla eða eyra – stundum fást einungis nokkur tonn í holi en svo eru menn að fá allt upp í 400 tonna hol,“ segir Tómas í samtali á heimasíðu Síldarvinnslunnar.
Jón Gunnar Sigurjónsson, verkstjóri í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar, segir að vinnslan á makrílnum gangi mjög vel. „Makríllinn er ýmist heilfrystur eða frystur hausskorinn og það eru unnin 600-800 tonn á sólarhring, en magnið fer eftir vinnsluaðferð. Nú er búið að taka á móti um 6000 tonnum á vertíðinni og hjá Síldarvinnslunni er um að ræða heildstætt skipulag á veiðum og vinnslu. Hjá okkur landa fjögur skip og veiðar þeirra eru skipulagðar þannig að ávallt sé ferskt og gott hráefni til staðar fyrir vinnsluna. Til þessa hefur verið unnið á tvískiptum vöktum í fiskiðjuverinu en eftir verslunarmannahelgi verður unnið á þrískiptum vöktum. Ég tel að þetta skipulag sé til fyrirmyndar og það gengur afar vel,“ segir Jón Gunnar.
Gert er ráð fyrir að vinnsla í fiskiðjuverinu hefjist á ný á mánudagskvöld að loknu fríi um verslunarmannahelgina.