Toppfiskur í samningaviðræðum við kröfuhafa

Deila:

Fiskvinnslan Toppfiskur vinnur nú að endurskipulagningu á fjárhag fyrirtækisins og verið er að komast að samkomulagi um stærstu kröfuhafa. Þetta segir Páll Kristjánsson, lögmaður Toppfisks í samtali við ruv.is.

Toppfiskur gerði kyrrstöðusamning við helstu kröfuhafa sína á vormánuðum en skuldir við Tryggingamiðstöðina urðu til þess að fasteignir fyrirtæksins fóru á uppboð hjá sýslumanni. Páll segir skuldirnar hafa verið gerðar upp og þá hafi nauðungarsölubeiðnin verið afturkölluð.

Banki langstærsti kröfuhafinn

Fram kom á RÚV í gær að nauðungarsölunni hafi verið frestað. Páll segir að það sé ekki rétt, heldur hafi skuldin verið gerð upp við gerðarbeiðanda. Um var að ræða ógreidda reikninga vegna fasteigna- og brunatrygginga. Höfuðstóll skulda hafi verið undir milljón.

„Kyrrstöðusamningurinn var lagður þannig upp að þegar honum lýkur er lögð fram tillaga að uppgjöri og það er verið að vinna í því þessa dagana og öllum helstu kröfuhöfum hefur verið kynnt það,” segir Páll. „Langstærsti kröfuhafinn er banki.”

Vilji til að blása lífi í starfsemina

Toppfiskur skuldar margar milljónir til útgerða á Bakkafirði. Páll undirstrikar að engar nýjar skuldir eru að stofnast við þær, enda séu þær allar í staðgreiðsluviðskiptum við félagið. Hann segir allar skuldir Toppfisks verði gerðar upp, eins og kröfuhöfum hefur nú þegar verið kynnt að einhverju leyti.

Toppfiskur sagði upp 12 af 13 starfsmönnum sínum á Bakkafirði haustið 2015 og hefur fiskvinnsla þar verið stopul síðan. Páll segir að vinnslan sé vissulega ekki jafn öflug og hún eigi að vera, en það sé vilji til þess að blása lífi í stafsemina.

 

Deila: