Vinnslustöðin reisir nýtt hús

Deila:

Framkvæmdir eru í þann mund að hefjast vegna byggingar 5.600 fermetra steinhúss á tveimur hæðum á reit Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum. Þar stendur til að byggja hús fyrir saltfiskvinnslu (á neðri hæð) og uppsjávarvinnslu fyrirtækisins (á efri hæð).

Frá þessu er greint á vef Vinnslustöðvarinnar. Þar er haft eftir Willum Andersen, tæknilegum rekstrarstjóra, að stefnt sé að því að saltfiskvinnsla hefjist í húsinu á vetrarvertíð 2025.

„Við erum núna að hreinsa út úr húsunum og byrjum að rífa þökin einhvern næstu daga. Gamlir útveggir þróarinnar verða notaðir áfram en steypt nýtt milligólf og öðru breytt eins og þurfa þykir.

Þegar þar að kemur fer mikill tækjabúnaður inn á gólf efri hæðar. Þar verður innvigtun uppsjávarafla, flokkun og flökun sem uppfyllir allar kröfur í nýrri reglugerð þar að lútandi“.

Í fréttinni kemur fram að áfram hefur ákvörðun um hvort rífa skuli gömlu húsin verið slegið á frest.

Eykt ehf. annast verkið en T.ark arkitektar hönnuðu húsið.

Nánari upplýsingar um verkefnið má sjá hér.

Deila: