Orðið erfitt að manna skipin

Deila:

„Það sem við erum að glíma við fyrst og fremst núna er að  gengi krónunnar er að drepa íslenskan sjávarútveg. Laun sjómanna hafa hrunið eftir verkfall, fyrst og fremst út af gengi krónunnar. Ég held að það sé brostinn á mikill flótti úr sjómannastéttinni út af launum, sérstaklega á línubátum, þar sem mesta vinnan er. Það er orðið erfitt að manna þá og þessi þróun mun fara upp allan stigann. Við höfum séð þetta gerast áður.“ Þannig lýsir frystitogarasjómaðurinn Einar Hannes Harðarson stöðunni í málefnum sjómanna um þessar mundir.

„Ég held að stjórnvöld verði að grípa inn í og gera eitthvað í þessum gengismálum. Það sem stjórnvöld hafa gert hingað til hafa engu skilað til að hægja á styrkingu íslensku krónunnar. Við verðum að fara að breyta peningastefnunni okkar,“ segir Einar, sem einnig er formaður Sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur.

Menn geta ekki farið hvern einasta túr

„Ef þú ferð alla túra á línubáti í mánuði eru heildartekjur ekki nema 800 til 900 þúsund, sem er ekki nægilega gott. Það er hagvöxtur í landinu og menn geta farið í land fyrir sambærilegar tekjur. Við þær aðstæður fækkar mjög í sjómannastéttinni og verður erfiðara að manna skipin. Við höfum séð hér í Grindavík að fleiri en bátur hefur ekki farið á sjó vegna þess að ekki hefur náðst að manna þá. Við erum ekki á góðum stað hvað þetta varðar og á þrælaskútunum, sem eru línubátarnir, eru tekjurnar orðnar allt of lágar. Um það virðast allir vera orðnir sammála. Vinna er rosaleg og menn endast ekki lengi í þessu. Það er bara staðreynd. Menn geta ekki farið hvern einasta túr til að geta haft einhver mannsæmandi laun. Menn verða að taka sér einhver frí. Skrokkurinn leyfir það ekki að fara alla túra. Þarna er vinnan mest og launin lægst.

Við hjá Sjómanna- og vélstjórafélagi Grindavíkur reyndum að berjast fyrir þessa menn í síðustu kjarasamningum en það var erfitt því þetta er líka erfitt árferði fyrir útgerðarmennina líka. Þeir eiga þó að vera betur undirbúnir en við í svona árferði þar sem bestu ár íslensks sjávarútvegs eru nýliðin. Þeir hljóta að vera búnir að undirbúa sig undir það að alltaf komi niðursveifla eftir góðæri,“ segir Einar.

Færri pláss, meiri vinna

Einar er háseti á frystitogara og er búinn að vera á sjó í 17 ár. Hann segir að aflabrögð nú eftir verkfall hafi verið mjög góð. „Með þeirri samþjöppun sem orðið hefur í íslenskum sjávarútvegi, hefur plássum fækkað gríðarlega en á móti kemur að vinnan á þessum skipum með auknum kvóta á hvert skip hefur aukist mikið. Það er orðin mikil pressa að vera á þessum togurum, því lögð er áhersla á að koma miklu magni í gegn á sem minnstum tíma.  Þetta hefur sloppið til hjá okkur með auknu magni en krónan er alltof sterk. Eins og allir vita sem eitthvað þekkja til íslensks sjávarútvegs er komið að hættumörkum. Það er orðið erfitt að starfa í íslenskum sjávarútvegi með krónuna svona rosalega sterka.“

Nú standa menn á frystitogurum átta tíma, rúllandi vaktir en ekki sex og sex eins og áður var. „Við byrjum hálf fimm á morgnana og vinnum til hálf eitt í hádeginu. Þá er hvíld til hálf níu um kvöldið, þá hefst vinna til hálf fimm á ný á annarri vaktinni. Hin vaktin er svo í hinu rólinu. Þannig erum við að vinna 16 tíma annan sólarhringinn og 8 tíma hinn. Þetta er mjög fínt, en áður fyrr vorum við á sex tíma vöktum sem var miklu erfiðara, því þá var hvíld á milli vakta miklu minni. Eftir átta tíma hvíld er maður betur úthvíldur og mætir ferskari á vaktina,“ segir Einar.

Í stöðugri framför

Á frystitogurunum er verið að fullvinna fisk eftir eftir óskum markaðsins hverju sinni. Togarinn er einskonar fljótandi frystihús, sem veiðir fiskinn auk þess að vinna hann. „Við erum í raun að vinna fiskinn í neytendapakkningar og hann er seldur út um allan heima. Gæðakröfur eru alltaf að verða meiri og meiri og við erum farnir að nýta meira af fiskinum en áður var. Nú hirðum við til dæmis alla karfahausa enda orðið ágætisverð á þeim. Við erum að fá frá 80 upp í 100 krónur fyrir kíló af þessum hausum, sem áður fyrr var hent.

Íslenskur sjávarútvegur er því alltaf í stöðugri framför. Það mun bara aukast að menn hirði og nýti allt sem kemur um borð. Meðan verðið á svokölluðum aukaafurðum fer hækkandi, verður meiri hvati til að vinna aukaafurðir því þannig aukast tekjurnar. Það mun til dæmis koma að því að hirða þurfi allt þorskroð. Þeir á línubátunum eru farnir að hirða slógið, en Haustak á Reykjanesi vinnur það allt. Þetta er mikið framfaraskref og laun sjómanna hækka lítillega við þetta. Sem dæmi um þær miklu breytingar sem orðið hafa á undanförnum áratugummá nefna að grálúðan var sett í bræðslu á sínum tíma. Nú er hún  einverðmætasta fiskitegund sem við veiðum við Ísland. Með því að auka nýtingu á því sem kemur um borð, munum við skapa meiri verðmæti í greininni öllum til góðs.

Það má taka dæmi um hið frábæra fyrirtæki Haustak á Reykjanesi sem er alltaf að eflast og þróa framleiðslu sína í þurrkuðum afurðum eftir gangi mála á mörkuðum. Nígería er helsti markaðurinn fyrir þurrkaðar afurðir en sá markaður er nú mjög veikur en tekur afurðir á lágu verði. Mikilvægt er að viðhalda þessum markaði þó hann sé í lagð og töluvert margir hafa atvinnu af fiskþurrkun í landinu.“

Mismikil snyrting

Á átta tíma vakt er að jafnaði híft einu sinni. Þegar aflinn er kominn um borð er fiskurinn hausaður og settur í kör með ískrapa og sjó til að kæla hann niður. Bara á þessum 17 árum sem ég hef verið í þessu hafa náðst gífurlega framfarir í því að kæla fiskinn niður og auka gæði hans með því. Hann verður hvítar og betra hráefni.

Eftir kælinguna er fiskurinn keyrður upp úr körunum og settur í flökunarvél eftir flökun tekur roðflettivél við. Síðan kemur að áhöfninni að snyrta flökin, en það mismunandi hve mikil snyrtingin er. Vinnslunni er stjórnað mikið til úr landi eftir þörfum markaðsins hverju sinni og hvar hæstu verðin eru. Stundum þarf við að vinna mikið beinlaust, stundum mikið inn á Bretland. Breska pundið hefur reyndar fallið eftir ákvörðunina um útgöngu er Evrópusambandinu. Því er það alltaf að aukast að skera meira á Ameríku, því dollarinn hefur ekki veikst eins mikið gagnvarg krónunni og pundið.

Flökin fara síðan í flokkara þar sem þau eru flokkuð í sjö mismunandi stærðarflokka. Það sem hefur gerst með árunum að smærri fiskurinn hefur hækkaði meira í verði en stærri fiskurinn. Þessi 200 gramma flök eru til dæmis orðin mjög verðmæt því það er svo þægilegt fyrir kaupendur að fá þessa stærð á flaki því það er einn skammtur á disk neytandans. Í sumum tilfellum eru aðeins 40 gramma þyngdarmörk á milli flokkanna.  Flökunum er síðan pakkað og pakkningarnar frystar og síðan pakkað í stærri kassa og fara síðan ofan í lest.

Bjór í jólagjöf

„Við erum til dæmis með einn mjög góðan kaupanda í Bretlandi sem vill öll sín flök með roði og beini. Hann hann vill bara flök frá 225 grömmum til 500 grömm og fyrir þá þjónustu borgar hann 10% hærra verð. Hann á 22 veitingastaði í Englandi sem heita Fish and chicken. Hann kaupir allan sinn fisk af sömu skipunum á Íslandi og hefur gert í mörg ár. Hann kaupir allan sinn kjúkling af sama býli og hefur gert í mörg ár og allar sínar frönsku kartöflur af sama framleiðanda árum saman.

Til gamans má geta þess að hann kemur hérna alltaf einu sinni á ári á Fjörugum föstudegi og eldar fyrir Þorbjarnarmenn í hófi sem þeir halda fyrir alla Grindvíkinga. Þetta er fínn karl sem heitir Hugh. Hann gefur öllum sjómönnum á togurum Þorbjarnar, 104 mönnum ásamt lausaróðrarmönnum, jólagjöf. Það eru 10 bjórar á mann og ég held að hann gefi alls 250 sjómönnum á Íslandi jólagjafir. Ég held að þessir 10 bjórar skili honum fiski af toppgæðum enda er dextrað alveg sérstaklega við framleiðsluna fyrir hann og í þessum samskiptum ríkir gagnkvæmt traust.

Slysum fækkar með betri skipum

Einar er ánægður með þá endurnýjun sem er að verða í togaraflota landsmanna, en nýir togarar flykkjast nú til landsins. „Frystitogarinn Sólberg er nýkomin til landsins er þar verða 34 í áhöfn, en almennt eru 26 í áhöfn frystitogaranna. Þetta er í fyrsta sinn sem svona gríðarleg aukning verður í áhöfn á einu skipi við Ísland. Þar verða vatnsskurðarvélar í fyrsta sinn í íslenskum togara til að skera flökin niður í bita. Þeir munu nýta betur það sem um borð kemur og skapa ótrúlega verðmæti úr því sem aðrir hafa ekki enn náð að ég tel, þó það taki einhvern tíma að fínstilla vinnsluna til að ná henni eins og menn vilja hafa hana. Ég held að það sé mikið framfaraskref í íslenskum sjávarútvegi að fá þessi nýju skip, sem nú eru að bætast í flotann. Norðmenn eru búnir að vera með svona skip í 10 ár og þeir ná miklum árangri. Við viljum alls ekki dragast aftur úr þeim.

HB Grandi er einnig að fá nýja ísfisktogara með mannlausri lest, sem ég held að sé mikið framfaraskref. Eins og þeir verða útbúnir, mun vinnan í lestinni nánast detta alveg út. Miðað við þær slysatölur sem ég hef séð hjá sjómönnum, eiga mörg slys á ísfisktogurum og línubátum sér stað í lestinni. Nú er sú vinna að detta út og því skulum við vona að slysum muni fækka í kjölfarið á þessari miklu nýjung sem Skaginn á Akranesi hannaði.  Ég held að það gríðarlega flott ef þessi kerfi virka eins og þeim er ætlað og menn þurfi ekki að vera að vinna með mikið af tómum körum í lestinni í hvernig veðri sem er. Það er til hagsbóta fyrir alla að ná árangri í öryggismálum sjómanna og útrýma erfiðum og hættulega störfum um borð. Í samningum sem gerðir voru í febrúar var mikið tekist á um slysamálin og allir vonast til þess að slysum fari að fækka. Þeim fylgir mikill kostnaður en margar útgerðir eru að vinna mjög vel í þessum málum, til dæmis með skipan öryggismálafulltrúa. Ég held að með þessari framþróun muni slysunum fækka,“ segir Einar Hannes Harðarson.
Viðtalið birtist einnig í Sóknarfæri í dag.

 

 

 

 

 

 

Deila: