Brislingur veiðist við Ísland í fyrsta sinn

Deila:

Í leiðangri Hafrannsóknastofnunar, undir leiðangursstjórn Guðjóns Sigurðssonar, sem farinn var til rannsókna á flatfiski á grunnslóð við landið nú í lok ágúst, veiddist brislingur í fyrsta skipti við Ísland. Einungis einn fiskur veiddist og var hann 15 cm langur. Fiskurinn fékkst á 20 m dýpi undan Eyjafjallasandi. Frá þessu er sagt á heimasíðu Hafrannsóknastofnunarinnar.

Brislingur (Sprattus sprattus) er smávaxinn fiskur af síldarætt, verður sjaldnast stærri en 16 cm. Hann líkist nokkuð smásíld, en er auðgreindur frá síld á því að kviðrönd er með þunnan, snarptenntan kjöl og rætur kviðugga eru undir eða rétt framan við upphaf bakugga í stað þess að vera undir honum miðjum.

Brislingur er uppsjávarfiskur á grunnsævi, oft nærri ströndum og þolir vel seltulítinn sjó.
Útbreiðslan er víðáttumikil á landgrunni Norður Evrópu og Afríku, einkum innan 50 m dýptarlínu. Hún nær frá Atlantshafsströnd Marokkó og norður í Norðursjó og að strönd suðurhluta Noregs og inn í Eystrasalt. Þá finnst hann í Miðjarðarhafi, Adríahafi og Svartahafi.

brislingur_2

Á þeim svæðum sem brislingur finnst er hann mikilvæg fæða bæði ýmissa fiska og sjófugla.
Miklar veiðar eru stundaðar á þessari tegund og fer stærstur hluti aflans í mjöl, en lítilsháttar markaður er fyrir hann til manneldis, þá reyktur og niðursoðinn. Eins og búast má af skammlífri tegund, þá hefur afli, bæði í Norðursjó og Eystrasalti, verið mjög sveiflukenndur eftir árum. Á árunum 1974-1979 var ársaflinn í Norðursjó á bilinu 350-600 þús. tonn, en minnkaði hratt eftir það og mjög lítið var veitt árið 1986. Síðan óx aflinn aftur nokkuð jafnt frá ári til árs og var um 360 þús. tonn árið 1995. Eftir það hefur aflinn verið breytilegur, frá 60 þús. og upp í 300 þús. tonn, var um 250 þús. tonn á síðasta ári. Í Eystrasalti hefur afli verið heldur stöðugri á undanförnum áratugum og ársaflinn verið 300-500 þús. tonn, mestur árið 1997.

 

Deila: