Fiskur frá Asíu seldur undir merkjum Icelandic

Deila:

Fiskur sem seldur er undir vörumerkinu Icelandic Seafood í Norður-Ameríku er ekki alltaf íslensk sjávarafurð. Sjávarútvegsfyrirtækið Icelandic leigði vörumerkið út fyrir sex árum en vill nú að það verði einungis notað yfir íslenskan fisk. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.

Herdís Dröfn Fjeldsted, framkvæmdastjóri Framtakssjóðs Íslands, eiganda Icelandic, sem á vörumerkið Icelandic Seafood, segir að skriflegt samþykki liggi fyrir um að þessu verði hætt á næsta ári. Framtakssjóður Íslands er í eigu lífeyrissjóða og Landsbankans. „Vörumerkið hefur hingað til ekki verið markaðssett einungis fyrir íslenskar vörur en það er markmið okkar til framtíðar að svo verði og erum við að vinna í að klára það,“ segir Herdís Dröfn.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins eru dæmi um að hvítfiskur frá Asíu, eins og kínversk tilapía, hafi verið seldur í miklu magni vestanhafs undir íslenska merkinu. „Ég er ekki með nákvæmar upplýsingar um hvaðan þær koma en þetta eru allt hágæða vörur sem eru undir vörumerkinu,“ segir Herdís.

Í frétt Fréttablaðsins á laugardag, um að Icelandic hefði mótmælt skráningu vörumerkisins Icelandic Fish and Chips í Bandaríkjunum, kom fram að High Liner seldi fisk fyrir yfir hundrað milljónir dala á ári undir vörumerkinu. Icelandic hefur síðustu ár selt stóran hluta af starfsemi sinni og mun starfsemi fyrirtækisins næstu ár snúast að mestu um vörumerkið Icelandic Seafood.

Deila: