Forsetinn með fiskabindi á IceFish 20017

Deila:

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, heimsótti Íslensku sjávarútvegssýninguna, IceFish 2017, í Smáranum  í gær. Guðni ræddi við skipuleggjendur sýningarinnar undir forystu Mari­anne Rasmus­sen-Coull­ing, fram­kvæmda­stjóra sýningarinnar og Andrew Webster, framkvæmdastjóra Mercator Media sem hefur haft umsjón með sýningunni síðan 2008, en heimsótti síðan nokkra af helstu sýnendum.

Endurspeglar vel þróttinn í sjávarútveginum

Guðni lýsti yfir ánægju sinni með sýninguna og hvernig að henni var staðið, sérstaklega hversu vel hún endurspeglaði þrótt og nýsköpun íslenskra fyrirtækja í sjávarútvegi og þeirra sem þjónusta þau með tækjum og búnaði. Forsetinn þáði m.a. boð Marels um að reyna ný sýndarveruleikagleraugu sem senda notandann á ferðalag um hátæknilega fiskvinnslu. Guðni sló á létta strengi þegar gleraugun voru komin á hann og uppskar hlátur viðstaddra þegar hann spurði hvort að hann ætti núna að skjóta á geimverur?

Hálsbindið sem tryggði styrkinn

Bindið sem forsetinn bar vakti líka athygli gesta, en það skartaði litríkum fiskum. Guðni sagðist hafa fengið bindið þegar hann var að vinna að doktorsritgerð sinni í Bretlandi, en hún fjallaði um útvíkkun landhelgi Íslands og þorskastríðin við Breta 1948-1964. Þá þurfti hann að leita til nefndar ytra um styrk til frekari ritsmíða og þáverandi unnusta hans og núverandi eiginkona, Eliza Reid, gaf honum bindið af því tilefni. Hann fór síðan á fund nefndarinnar og fékk styrkinn. „Þeir sögðu við mig eftir á að maður sem sýndi svo mikla ástríðu fyrir efninu að hann bæri meira að segja hálsbindi skreytt fiskum yrði óhjákvæmilega að fá styrk,“ sagði Guðni við góðar viðtökur viðstaddra.

Á myndinni sem Bragi Þór Jósefsson tók sést forsetinn (og bindið góða)  skoða skipslíkan í bás Måløy Maritime Group frá Noregi á IceFish.

 

Deila: