Frumvarp um fiskveiðistjórnun í Færeyjum lagt fram á ný

Deila:

Færeyska ríkisstjórnin hefur á ný lagt fram frumvarp um grundvallarbreytingar á núverandi fiskveiðilöggjöf. Ríkisstjórnin sagði upp núverandi skipan veiða skömmu eftir að hún tók við völdum frá og með næstu áramótum og hefur síðan kynnt breytingar, sem nokkur styr hefur staðið um.

Frumvarpið hefur tekið nokkrum breytingum frá það var fyrst lagt fyrir fyrr í sumar, en ekki náðist að afgreiða það fyrir þingslit í sumar. Því kemur það nokkuð breytt til afgreiðslu nú.

Fiskveiðum við Færeyjar hefur verið stjórnað frá árinu 1996 með fiskidagakerfi, sem felur í sér leyfi skipa og báta til að sækja sjó í ákveðinn dagafjölda á ári, en takmarkar ekki heildarafla. Samkvæmt nýja frumvarpinu verður veiðunum stjórnað með kvótakerfi að hluta til, daga kerfi og uppboðum veiðiheimilda að hluta til. Leyfilegur heildarafli á ári verði ákvarðaður í samræmi við tillögur fiskifræðinga. Aðild útlendinga að útgerðarfélögum verður óheimil eftir 6 til 7 ár.

Uppboð aflaheimilda í botnfiski koma til á heimamiðum fari leyfilegur heildarafli upp fyrir ákveðin mörk í þorski, ýsu og ufsa, eða 15.000 tonn af þorski, 7.500 tonn af ýsu og 40.000 tonn af ufsa, en þessi mörk eru öll vel undir því magni sem er að veiðast á þessu ári. Fjórðungur núverandi aflaheimilda í uppsjávarfiski og botnfiski á fjarlægum miðum verða boðin upp.

Verði úthlutaðar aflaheimildir ekki nýttar, falla þær aftur til ríkisins. Veiðileyfi verða gefin út til átta ára í senn og hámark er sett á hlutdeild útgerða og fyrirtækja. Greitt verður auðlindagjald fyrir heimildirnar.

Löndunarskylda verður 75% í Færeyjum og að tilteknum tíma, skal allt í land og nýtast þar. Skip sem fá heimildir til veiða skulu vera skrásett í Færeyjum og þeir sem réttindi hafa til veiða skulu vera búsettir í Færeyjum. Og greiða þangað skatta og skyldur. Laun áhafna skulu fara eftir færeyskum lögum.

 

Deila: