Rafræn veiðibók fyrir stangveiði

Deila:

„Með opnun rafrænnar skráningar verður hin hefðbundna skráning veiði í veiðibækur aflögð nema í þeim undantekningartilfellum þar sem rafrænni skráningu verður ekki viðkomið.” Þetta kemur fram á vef á vegum Hafrannsóknastofnunar, þar sem rafræn veiðiskráning fer fram.

Fram kemur að Hafró hafi unnið að málinu í samstarfi við Fiskistofu.Bent er á að skráning veiði sé lagaksylda á Íslandi. „Gera skal skýrslu um veiði í sérhverju veiðivatni og netlögum sjávarjarða og hvílir skylda til skýrslugjafar á handhafa veiðiréttar og sérhverjum þeim er veiði stundar“.

„Góð skráning veiði er einn af hornsteinum þess að vakta nýtingu þeirra auðlinda sem felast í fiskstofnum í ám og vötnum. Skráning lax- og silungsveiði hér á landi byggir á formi veiðibóka sem er að stofni til frá árinu 1946. Skráning laxveiði er almennt góð og kannanir sýna að 98% laxveiðinnar er skráð í veiðibækur. Silungsveiði hefur hins vegar ekki verið eins vel skráð og er þar til nokkurs að vinna og vonast er til að skráning silungsveiði muni batna með tilkomu rafrænnar skráningar.”

Einnig kemur fram að rafræn skráning mun leysa innsláttarvinnu upp úr veiðibókum af hólmi auk þess sem rauntímagögn yfir veiði verða aðgengileg yfir veiðitímann og samantekt veiði eftir dögum og veiðistöðum á hverjum tíma. Hægt er að skrá bæði stangveiði og netaveiði en skráning á netaveiði verður ekki sýnileg nema samantekin.

Nánari upplýsingar má sjá hér.

Deila: