Sígur á seinni hluta makrílvertíðar

Deila:

Nú er farið að síga verulega á seinnihluta makrílvertíðarinnar þó sum stóru skipanna séu enn að veiðum. Heildarafli á vertíðinni var í gærkvöldi orðinn um 145.000 tonn samkvæmt aflastöðulista Fiskistofu. Þá eru óveidd af leyfilegum heildarafla um 31.000 tonn. Í fyrra varð heildarafli á vertíðinni 159.000 tonn og 8.200 tonn flutt yfir á þetta ár.

Aflareynsluskipin eru með obbann af veiðiheimildunum í ár enda með mesta úthlutun og samtals heimildir til veiða á 150.000 tonnum eftir að nánast allar heimildir skipa án vinnslu hafa verið fluttar þar yfir og stór hluti heimilda vinnsluskipa.

Aflahæstu skipin í flokki aflareynsluskipa eru nú Venus NS með um 11.400 tonn, Víkingur AK með 10.300 og Vilhelm Þorsteinsson EA með 9.600 tonn.

Aðeins fjögur skip í flokki vinnsluskipa hafa landað makríl á vertíðinni samtals 11.500 tonnum. Þar er Kristina EA aflahæst með tæp 6.000 tonn og næst kemur Brimnes RE með 4.250 tonn.

Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Landssambands smábátaeigenda voru smábátarnir komnir með um 4.800 tonn í gær. Hæstir þeirra voru Fjóla GK með 280 tonn, Brynja SH með 274 og Andey GK með 263. Alls höfðu þá 54 smábátar landað makríl.

Deila: