Vaðandi makríll um allan sjó

Deila:

Góð makrílveiði hefur verið í Reyðafjarðardjúpi og svæðinu þar norðaustur af síðustu daga. Að sögn Hjalta Einarssonar, skipstjóra á Víkingi AK, var mjög góð veiði á fimmtudag en þá var vaðandi makríll um allan sjó.

Víkingur var í gær á leið til Vopnafjarðar með um 860 tonn af makríl sem fékkst í sex köstum eftir tvo sólarhringa á miðunum. Bjóst Hjalti við að vera kominn til Vopnafjarðar um kl. 21 en Venus NS var á leið á miðin.

,,Það er ekki auðvelt að eiga við makrílinn enda er mikil ferð á honum. Við eltum torfu í gær í norðaustur og höfðum varla við makrílnum svo sprettharður er hann. Það fékkst ágætur afli í morgun en þá fengum við um 160 tonn. Mér skilst svo að minna hafi fengist eftir hádegið. Svona er makríllinn. Hann kemur óvænt upp og veður út um allt en hverfur svo þess á milli eins og hendi væri veifað,“ segir Hjalti í samtali á heimasíðu HB Granda.

Að sögn Hjalta er makríllinn fyrir austan stór og feitur og hið besta hráefni.

,,Prufur benda til að meðalvigtin sé um 430 grömm og það er fínn fiskur,“ segir Hjalti Einarsson.

Deila: