Líf og fjör í Norðfjarðarhöfn

Deila:

Mikið var um að vera í Norðfjarðarhöfn á miðvikudag, en þá var verið að landa úr þremur skipum samtímis auk þess sem landað var úr smærri bátum. Bjarni Ólafsson AK var að landa rúmlega 800 tonnum af makríl til vinnslu í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar, Vilhelm Þorsteinsson EA tæplega 500 tonnum af frystum makríl í frystigeymslur Síldarvinnslunnar og Anna EA rúmlega 120 tonnum af grálúðu, en hluti þess afla fór til vinnslu í fiskiðjuverinu samkvæmt frétt á heimasíðu Síldarvinnslunnar.

Strax og löndun var lokið úr Bjarna Ólafssyni hófst löndun úr Beiti NK sem kominn var með 900 tonn af makríl.

Af makrílveiðunum er það að frétta að Börkur NK er fyrir vestan land, en þar hefur verið lítil veiði frá því hann kom á miðin. Bjarni Ólafsson hélt hins vegar til veiða á miðin út af Austfjörðum í gær og fékk þar góðan afla í morgun. Runólfur Runólfsson, skipstjóri á Bjarna Ólafssyni, segir að þarna fáist fínasti fiskur. „Við erum á Glettinganestotunni utarlega og hérna eru fimm skip að veiðum núna. Torfurnar sem hérna sjást eru yfirleitt smáar auk þess sem það er alltaf mikil ferð á fiskinum. Það getur verið býsna erfitt að ná árangri í veiðunum. Þetta er bara hittingur. Við fengum 90 tonna hol seint í gær og þá var einstaka bátur að fá góð hol. Í morgun fengum við síðan 350 tonna hol eftir að hafa togað í tvo og hálfan tíma. Þá hittum við ágætlega. Vonandi verður framhald á þessu hérna – við erum bara bjartsýnir,“ segir Runólfur.
Ljósmynd Smári Geirsson.

 

Deila: