Verðlagsstofa skiptaverðs verði lögð niður

Deila:

Arnar Atlason, framkvæmdastjóri Tor fiskvinnslu í Hafnarfirði, var kjörinn formaður Samtaka fiskverkenda og útflytjenda, SFÚ á aðalfundi samtakanna um helgina. Hann var einn í framboði og var fagnað með lófataki. Jón Steinn Elíasson, fráfarandi formaður tók sæti í stjórn. Á fundinum var eftirfarandi ályktun samþykkt:

Arnar Atlason

Arnar Atlason

„SFÚ leggur áherslu á að enginn ferskur fiskur verði fluttur óunninn úr landi án þess að hann hafi fyrst verið boðinn til sölu á opnum uppboðsmarkaði hér á landi.

SFÚ skorar á stjórnvöld að skapa sjávarútveginum heilbrigt og gott samkeppnisumhverfi með því að stuðla að réttri verðmyndun á afla þar sem markaðsverð á opnum fiskmarkaði verði látið ráða í öllum viðskiptum með fisk og verðlagsstofa skiptaverðs verði lögð niður. Slíkt stuðlar að réttu uppgjöri útgerðar, réttu uppgjöri til sjómanna, réttum hafnargjöldum, réttum gjöldum til hins opinbera og réttu verði til neytenda.

SFÚ skorar á stjórnvöld að lögbinda fjárhagslegan aðskilnað veiða og vinnslu þar sem útgerðarhluti fyrirtækja er með úthlutun aflaheimilda rekinn í skjóli opinbers einkaleyfis eða verndar á sama tíma og vinnsluhluti fyrirtækja er í frjálsri samkeppni. Vert er að benda á að slíks fjárhagslegs aðskilnaðar er krafist við nýtingu annarra auðlinda s.s. orku. Ekki er hægt að sýna fram á rétta rentu af auðlindinni á meðan hægt er að flytja arðinn af veiðunum yfir á fiskvinnsluna.

SFÚ skorar á stjórnvöld að stuðla að því að aukið magn hráefnis skili sér inn á fiskmarkaðina með því m.a. að skilyrða að allur strandveiðiafli og ýmiss ívilnunarafli verði seldur á opnum fiskmarkaði. Jafnframt er mikilvægt að ívilna útgerðum, sem landa afla á íslenskum fiskmörkuðum.“

Eftirtaldir voru kosnir í stjórn samtakanna á fundinum: Aðalsteinn Finsen, Albert Svavarsson, Gunnar Örn Örlygsson. Jón Steinn Elíasson, Kristján Berg og Mikael Símonarson.
Þá voru eftirtaldir kjörnir í varastjórn: Grétar Finnbogason, Hannes Sigurðsson, Steingrímur Leifsson og Þorgrímur Leifsson

 

Deila: