Marshall húsið fær hönnunarverðlaun

Deila:

Hönnunarverðlaun Íslands voru afhent í fjórða sinn við hátíðlega athöfn. Veitt voru verðlaun í tveimur flokkum, Hönnunarverðlaun Íslands og Besta fjárfesting í hönnun 2017.

Handhafar Hönnunarverðlauna Íslands 2017 eru Ásmundur Hrafn Sturluson og Steinþór Kári Kárason arkitektar Kurt og Pí, fyrir Marshallhúsið. Þeir leiddu hönnun verksins í samstarfi við ASK arkitekta.

Marshallhúsið, sem er í eigu HB Granda og á athafnasvæði félagsins í Reykjavík, er nýr vettvangur lista við gömlu höfnina í Reykjavík. Húsið var byggt árið 1948 sem síldarbræðsla en hýsir nú Nýlistasafnið, Kling og Bang, Stúdíó Ólafs Elíassonar ásamt vinnustofu og Marshall Restaurant + Bar.

Í umsögn dómnefndar kom meðal annars fram að verkið kristalli vel heppnaða umbreytingu eldra iðnaðarhúsnæðis fyrir nýtt hlutverk í samtímanum. Í verkinu sé unnið vel með sögu byggingarinnar og samhengi staðar og til verði nýr áfangastaður fyrir samtímalist í Reykjavík á áhugaverðu þróunarsvæði í borginni.  Marshallhúsið sé gott dæmi um hvernig með aðferðum hönnunar verði til nýsköpun í borgarumhverfinu.

Viðurkenningu fyrir Bestu fjárfestingu í hönnun 2017 hlaut Bláa Lónið þar sem hönnun eða arkitektúr er hafður að leiðarljósi frá upphafi verka til að auka verðmætasköpun og samkeppnishæfni fyrirtækisins.

 

Deila: