Sáratreg þorskveiði

Deila:

Ísfisktogarinn Akurey AK var staddur í kantinum vestur af Halamiðum um helgina og er markmiðið hjá áhöfninni að veiða sem mest af þorski. Eiríkur Jónsson, skipstjóri, segir það ekki ganga vel enda sé þorskveiði sáratreg um þessar mundir,

Akurey kom til Grundarfjarðar um kvöldmatarleytið í gær en hélt aftur á miðin um klukkan 23 þegar búið var að landa afla úr skipinu.

,,Þetta var ekkert hjá okkur, 70 til 80 tonn, en reyndar eftir bara þrjá daga á veiðum. Þegar veiðiferðirnar eru stuttar og aflinn eftir því er gott að eiga þann möguleika að landa í Grundarfirði þegar við erum á Vestfjarðamiðum. Það sparar okkur 12 til 14 tíma siglingu fram og til baka ef miðað er við löndun í Reykjavík,” segir Eiríkur í samtali á heimasíðu Brims..

Sem fyrr segir hefur þorskveiði verið treg en Eiríkur segir mikið leitað um þessar mundir.

,,Við höfum mest verið í kantinum en einnig farið í Djúpál, á Halann og austur í Þverál. Það hafa skip farið austur á Þverálshorn en það eina sem ég hef frétt af þessum miðum er að það hafi komið skot eina nóttina en svo var það búið. Maður veit aldrei upp á hverju ufsinn tekur. Það kom ágætt ufsaskot á Halanum um daginn og það stóð í tvo daga. Karfinn er ekki vandamál og mér skilst að einhverjir séu að rótfiska karfa í kantinum þessa stundina,” segir Eiríkur en hann segir einu góðu þorskveiðifréttirnar þessa dagana komi að austan.

,,Mér skilst að skip frá Síldarvinnslunni, Samherja og hugsanlega frá Hornafirði hafi verið að fá þokkalegan þorskafla einhvers staðar fyrir austan land,” segir Eiríkur Jónsson.

 

Deila: