Hinir gleymdu hagsmunir

Deila:

„Það væri hentugt fyrir sjávarútveginn að vita hvort íslensk stjórnvöld ætli að gefa þessum mikilvægu, en að því er virðist gleymdu, hagsmunum gaum,“ ritar Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, í pistli sem birtur er á heimasíðu samtakanna. Þar höfðar hún til banns Rússa á innflutningi sjávarafurða frá Íslandi. Bannið hefur komið mjög illa við íslenskan sjávarútveg. Pistill hennar fer hér á eftir en hann birtist fyrst í Viðskiptablaðinu:

 

Heiðrún Lind Marteinsdóttir

Heiðrún Lind Marteinsdóttir

„Fyr­ir smáþjóð í hörðum heimi geng­ur ekki bara að vera eins og ein­hverj­ir siðapostul­ar eða hrein­ar meyj­ar sem feta hinn þrönga veg dyggðar­inn­ar. Menn verða að hugsa aðeins um hags­muni lands­ins í bráð og lengd.“ Þetta sagði sagnfræðingurinn, síðar forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson í viðtali við RÚV hinn 6. ágúst 2015 þegar Rússar ákváðu að banna innflutning á tilteknum matvælum, meðal annars frá Íslandi. Ákvörðunin kom sér mjög illa fyrir íslenskan sjávarútveg. Rússar framlengdu bannið í júlí í ár og gildir það nú til loka árs 2018. Sú ákvörðun þeirra kom eftir að Evrópusambandið hafði ákveðið að framlengja viðskiptabann á Rússa vegna framferðis þeirra í Úkraínu.

Viðskiptabannið hefur komið hlutfallslega harðar niður á íslenskum hagsmunum en hagsmunum annarra ríkja. Þar er hlutur sjávarútvegsins langstærstur. Þátttaka Íslands í viðskiptaþvingunum gegn Rússlandi kom til vegna þrýstings frá Bandaríkjunum og Evrópusambandinu, að sögn fyrrverandi utanríkisráðherra, Gunnars Braga Sveinssonar. Íslendingum er því í raun ekki skylt að taka þátt í þeim.

Þó verður ekki um það deilt að Íslendingar eiga að sýna samstöðu með vestrænum ríkjum. En hvað sem okkur kann að finnast um framferði Rússa, verður að halda uppi viðræðum við þá sem við kunnum að vera ósammála. Umræðan skerpir skilning á afstöðu ólíkra sjónarmiða og markmiðið á að vera að fá botn í deilumál, útkljá þau. Því miður virðist ekkert að frétta af samræðum íslenskra yfirvalda og rússneskra um þetta efni.

Það er tímafrekt að finna nýja markaði og dýrkeypt að missa markaðsaðgang þegar búið er að koma honum á. Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki höfðu komið ár sinni ágætlega fyrir borð í Rússlandi og það væri hentugt fyrir sjávarútveginn að vita hvort íslensk stjórnvöld ætli að gefa þessum mikilvægu, en að því er virðist gleymdu, hagsmunum gaum.

Deila: