Grammið á 1.300 krónur

Deila:

Nýtt heimsmet var sett á fiskmarkaðnum Tsukiji í Tókýó í Japan nú í ársbyrjun, þegar Kiyoshi Kimura, eigandi keðju sushi-veitingastaða keypti einn túnfisk fyrir 369 milljónir íslenskra króna. Túnfiskurinn veiddist við Aomori í Japan og var 278 kíló að þyngd. Eldra met átti Kimura einnig, en þá keypti hann einn túnfisk á 169 milljónir króna árið 2013.

Hefð er fyrir því að fyrsti túnfiskur ársins seljist á himinháu verði á fiskmarkaðinum í Tókýó og að sushi-réttir úr honum seljist dýru verði á veitingahúsum. Ekki liggur þó fyrir hvort hagnaður hefur orðið af þessum viðskiptum fyrir veitingamanninn, en líklega hafa sjómennirnir borið vel úr býtum.

Þetta gerir hvorki meira né minna en 1,3 milljónir króna á hvert kíló. Það gerir þá 1.300 krónur grammið, en ekki er 100% nýting úr fiski með haus, þó slægður sé, svo reikna á að hver súshi-biti úr hinum dýrmæta fiski hafi þurft að kosta nokkur þúsund krónur svo svo kaupandi bæri ekki skarðan hlut frá borði.

Deila: