Það er alltaf bíll á ferðinni

Deila:

„Í dag gerum við út 17 bíla, sem eru nánast keyrðir allan sólarhringinn, það er alltaf bíll á ferðinni einhvers staðar. Hjá  okkur starfa um 30 manns, úrvals mannskapur, og við erum mest að starfa hérna á Snæfellsnesi, en förum mikið norður í land á haustin og veturna, þegar lítið er um fiskirí hérna á Breiðafirði. Þá landa bátarnir fyrir norðan og við sækjum fiskinn af þeim og skilum í vinnslurnar á þessu svæði. Þegar búið er að vinna hann, förum við svo með hann suður í flugið. 90% af okkur flutningum er fiskur.“ segir Ásgeir Ragnarsson, framkvæmdastjóri flutningafyrirtækisins Ragnars og Ásgeirs á Snæfellsnesi.

Á sömu kennitölu og stoltir af því

Saga fyrirtækisins spannar nærri hálfa öld og hafa flutningar á fiski verið hryggjarstykkið í því síðustu áratugina. „1970 stofnar pabbi minn þetta fyrirtæki með einn lítinn Bedford. Það gekk brösuglega fyrstu árin. Þá voru samgöngur erfiðar og þetta tók mikið á. Þá var líka lítið um fiskflutninga, mest vöruflutningar, en þá fóru mest allir flutningar um landið fram með strandferðaskipum. Þetta voru því mest hefðbundnir vöruflutningar í búðir og annað sem fólk þurfti út á land til að byrja með. Það er svo langt síðan þetta byrjaði það er að verða hálfrar aldar gamalt. Fyrirtækið á fimmtugsafmæli 2020.  Við eru stoltir af því að hafa aldrei skipt um kennitölu og munum fagna því verulega á stórafmælinu.

Feðgarnir Ásgeir Ragnarsson og Ásgeir Þór Ásgeirsson við nýjasta bílinn í flotanum.

Feðgarnir Ásgeir Ragnarsson og Ásgeir Þór Ásgeirsson við nýjasta bílinn í flotanum.

„Fyrirtækið er fjölskyldufyrirtæki og hefur verið í tæp 50 ár. Móðir mín lést að vísu fyrir 10 árum, en hún var einn af stofnendum þess ásamt pabba. Svo erum það ég, sonur minn Ásgeir Þór,  og pabbi, konan mín og tvær systur og einn bróðir sem eigum þetta, en ég er að kaupa bróðir minn út og önnur systirin að kaupa hina út. Eftir það verða eigendurnir fjórir, ég, pabbi, Ásgeir Þór, Jóna Björg systir mín og makar okkar,“ segir Ásgeir.

Upp úr 1990 er byrjað að stofna fiskmarkaði víða um landið, fyrst á höfuðborgarsvæðinu og síðan um allt land. Þá byrja fiskflutningarnir, sem nú eru bróðurparturinn af starfseminni. Þá voru fyrirtækin bæði að senda fisk suður á markaðina og kaupa fisk syðra til flutnings á Snæfellsnesið. „Við gerðum okkur klára í þetta dæmi á þessum árum. Það þurfti stærri og betur búna bíla með kælitækjum. Þetta gerist allt hratt á þessum árum upp úr 1990 með fiskmörkuðunum og auknum landflutningum því strandsiglingarnar voru að leggjast af á sama tíma,“ segir Ásgeir.

Þarf að vera góður í tetris!

Eftir aldamótin fara flutningar á ferskum fiski að aukast verulega með útflutning á ferskum flökum með flugi og skipum. „Við erum að taka fiskinn unnin og pakkaðan hérna á Nesinu seinnipart dags og hann er fluttur suður um kvöldið út á Keflavíkurflugvöll og farinn utan með flugi í morgunsárið.

Á vertíð og fram eftir sumri eru mikið framboð af fiski hérna við Breiðafjörðinn, fiskur sem fer á markaði hér og er seldur víða um land og af því sem fer suður fer mikið með okkar bílum. Við keyrum bæði fyrir Eimskip og Samskip og því eru miklir flutningar hingað til baka að sunnan, sérstaklega eftir að ferðamennskan hér hefur aukist svona mikið. Þú þarft að vera góður í tetris til að ná að púsla þessu öllu vel saman til að ná sem bestri nýtingu út út ferðunum. Það gengur ekki að vera mikið að þvælast með tóman bíl. Við eru að vinna í því allan daginn að hafa nýtinguna á bílunum sem allra besta.“

Hver bíll kostar 40 milljónir

Það er dýrt að gera út öfluga bíla með kælibúnað fyrir fiskflutninga. „Einn svona bíll kostar 40 milljónir og því verður að nýta fjárfestinguna eins og mögulegt er, keyra helst allan sólarhringinn. Núna erum við að komast út úr kreppunni eftir hrunið 2008 og byrjaðir að fjárfesta í nýjum bílum. Við vorum með erlend lán eins og mörg önnur fyrirtæki og fengum að súpa seyðið af því. Núna er árið 2017 og við erum búnir að kaupa okkur þrjá bíla á einu ári. Fyrst eftir kreppuna gátum við ekkert endurnýjað og þá voru bílarnir komnir  upp í 800 til 900 þúsund kílómetra með tilheyrandi viðhaldi. Það er dýrt og frátafir miklar þegar bílarnir byrja að bila. Við erum að komast út úr þeirri kreppu og ef við getum endurnýjað bílana eftir 500 þúsund kílómetra, erum við í góðum málum. Þá erum við að mestu leyti lausir við kostnaðarsamt viðhald. Við erum enn með nokkra bíla, sem eru mikið keyrðir en þeim fækkar vonandi.“

Gott samstarf við Vegagerðina

Það er svipað í þessari útgerð og útgerð fiskiskipa, en ástæðulaust er að hvíla tækin mikið, en auðvitað verður að fara eftir vökulögum. Það er hámark á þeim tíma sem ökumaður má vera á veginum án hvíldar. Ásgeir ólst upp við það að mega keyra allan sólarhringinn, en hann segir að slíkt gangi auðvitað ekki lengur og fara verði að lögum og reglum hvað hvíldartíma varðar. Það geti hins vegar verið erfiðleikum bundið, því vegakerfið bjóði ekki upp á nógu marga staði til að bílstjórar geti hvílst við viðunandi aðstæður. Það þurfi í samræmi við kröfur að koma upp svokölluðum hvíldarplönum svo hægt sé að uppfylla kröfurnar.

Hann bendir einnig á að á Íslandi sé á veturna allra veðra von og það geti stundum borgað sig að halda áfram akstri þó tímamörk séu að renna út, því vistlaust veður geti skollið á eftir tvo til þrjá tíma. Þeir fari að reglum og hafi til dæmis átt mjög gott samstarf við Vegagerðina, sem hefur rutt þeim leiðina þegar á hefur þurft að halda.

Miklir flutningar fram og til baka

Hvernig er venjulegur dagur hjá þeim feðgum í vinnunni?. „Við fáum okkur venjulega kaffi hérna klukkan sjö til hálf átta á morgnana til að spá í spilin. Við förum venjulega beint á netið til að sjá hve margir bátar eru á sjó, en uppboðin á fiskmörkuðunum byrja ekki fyrr en klukkan eitt á daginn. Þá reynum við að meta hve mikið þeir muni fiska þann daginn. Við vitum hvað þeir voru með mikið daginn áður. Við vitum líka hvort von er á togurum eða stærri skipum til löndunar. Klukkan fjögur á daginn er þetta nánast allt orðið niðurnjörvað.

Hvað mikið á að fara héðan í flug eða skip, hve mikið er á mörkuðum. Hvað eigi svo að taka vestur til baka um nóttina. Við setjum upp á blað fyrir hvern dag hvernig planið er, hvað við erum til dæmis að flytja frá Rifi, Ólafsvík, Grundarfirði og úr Stykkishólmi. Hvað sé mikið af fiski þann daginn. Þeir sem mæta til vinnu klukkan fjögur fá blöðin í hendurnar og sömuleiðis strákarnir sem koma að sunnan. Við getum verið að fara með fisk allt austur til Þorlákshafnar og svo eru það Suðurnesin og höfuðborgarsvæðið, Akranes og Borgarnes.

Fiskurinn er mikið seldur í fjarskiptum og kemur ekki í land fyrr en á kvöldin. Hann þarf þá að flokka fyrir dreifingu og merkja kaupenda áður en hann er keyrður suður þar sem hann fer í dreifingu en hann þarf að vera kominn til kaupenda sex til sjö á morgnana, því þá eru þeir að byrja að vinna. Bílstjórarnir eru svo að koma til baka kringum níu á morgnana. Þá fara þeir að hvíla sig, en við tökum við bílunum affermum þá og þrífum og gerum þá klára fyrir næstu ferð síðar um daginn.  Stundum koma þeir með tóm kör að sunnan því sækja þarf fisk daginn eftir norður á land, Skagaströnd og Siglufjörð, sem vinna á hér á Nesinu og flytja svo suður til útflutnings.“

Eðlilegt að greiða fyrir góða þjónustu

Þetta er kostnaðarsöm útgerð en er ekki dýrt að flytja fiskinn fram og aftur með þessum hætti. Eru menn að kvarta yfir flutningskostnaðinum?

„Ég tel okkur vera með skynsama viðskiptavini. Þeir sjá hvaða þjónustu við erum að veita og eru ánægðir með hana. Þá eru menn ekki mikið að kvarta undan verðinu, finnst eðlilegt að greiða fyrir góða þjónustu. Stóru fyrirtækin hérna á Nesinu hafa staðið mjög vel með okkur og samstarfið er gott. Við finnum ekki annað en viðskiptavinir okkar séu sáttir við þá þjónustu, sem við veitum enda er hún góð að okkar mati,“ segir Ásgeir Ragnarsson.
Viðtalið birtist fyrir í blaði Athygli, Sóknarfæri í sjávarútvegi.

Myndir og texti Hjörtur Gíslason

 

 

 

Deila: