Hagmunir íbúa ekki hafðir að leiðarljósi
Nefnd sjávarútvegsráðherra um stefnumótun í fiskeldismálum hefur hagsmuni íbúa á Vestfjörðum ekki að leiðarljósi. Þetta sögðu sveitar- og bæjarstjórar Súðavíkurhrepps, Ísafjarðarbæjar og Bolungarvíkurkaupstaðar í yfirlýsingu í gær. Í yfirlýsingu Péturs G. Markan, sveitarstjóra Súðavíkurhrepps, Jóns Páls Hreinssonar, bæjarstjóra í Bolungarvík, og Gísla Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar, segja þeir frá fundi sem þeir áttu með nefnd sem á að móta stefnumótun til framtíðar í fiskeldi. Nefndin vinnur að þeirra mati fyrst og fremst að því að úthluta fyrirtækjum svæði fyrir starfsemi sína frekar en eiginlegri stefnumótun um uppbyggingu fiskeldis.
„Ef raunin verður sú að tillaga nefndarinnar um stefnumótun í fiskeldi verður á þeim nótum sem við upplifðum á fundinum þá getur slík tillaga aldrei orðið meira en innlegg í málið og undirbúningur að víðtækari og heildstæðari stefnumótun þar sem hagsmunir íbúa, bæði Vestfirðinga og annarra landsmanna, verði settir í fyrsta sæti. Þeir gríðarlegu þjóðarhagsmunir sem geta legið í laxeldi í Ísafjarðardjúpi eru alltof miklir til að verða skiptimynt í hrossakaupum,“ segir í yfirlýsingunni.
Í yfirlýsingunni rekja þeir að nefndin hafði ekki fundað með fulltrúum sveitarfélaganna við Djúp og það var ekki fyrr en að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegsráðherra skarst í leikinn að nefndin settist niður með heimamönnum, en það var á þriðjudaginn síðasta.
„Það að verður að segjast eins og er að fundurinn með nefndinni olli okkur verulegum vonbrigðum. Svo virðist sem ætlun nefndarinnar sé að ná einhvers konar samkomulagi milli eldisfyrirtækja og veiðiréttarhafa um svæðaskiptingu fyrir laxeldi – að mestu án tillits til hagsmuna íbúa svæðanna – en minna horft til raunverulegrar stefnumótunar í fiskeldismálum þar sem samfélög og sjálfbærni yrðu lögð til grundvallar. Það er því varla að sjá að frá nefndinni muni koma eiginlega stefnumótum um hvernig uppbyggingu fiskeldis skuli háttað á Íslandi, heldur sé fyrst og fremst verið að úthluta fyrirtækjum svæðum fyrir starfsemi sína.“
Mat þremenninganna er að áhættumat Hafrannsóknastofnunar, þar sem lagst er gegn laxeldi í Ísafjarðardjúpi, sé lagt til grundvallar í vinnu nefndarinnar.
„Svo var að heyra sem ein skýrsla Hafró – sem er umdeild í þokkabót – eigi að verða hornsteinn einhverskonar sáttar milli þessara hagsmunaaðila, laxeldisfyrirtækja og veiðiréttarhafa, án þess að íbúarnir og hagsmunir þeirra eigi sæti við borðið. Einungis tvo mánuði tók að setja saman skýrslu Hafró. Ef það var svona veigalítið verk að slá laxeldisáform í Ísafjarðardjúpi út af borðinu, hvers vegna var þessi skýrsla þá ekki unnin fyrir mörgum árum síðan þegar áform um laxeldi í Ísafjarðardjúpi voru fyrst kynnt. Það er algerlega óásættanlegt að skýrsla Hafró fái að ráða því að hagsmunir íbúanna séu virtir að vettugi og hagsmunum þeirra jafnvel fórnað fyrir tvær veigalitlar laxveiðiár í Djúpinu.
Það er krafa okkar að skýrsla um hagræn, lýðfræðileg og menningarleg áhrif fiskeldis á byggðir við Ísafjarðardjúp verði höfð til grundvallar, rétt eins og áhættumat hafrannsóknarstofnunnar, við ákvörðun um fiskeldisuppbyggingu í Ísafjarðardjúpi,“ segir í yfirlýsingunni.
Frétt og mynd af bb.is