Slysasleppingar regnbogasilungs á Vestfjörðum

Deila:

Fiskeldisfyrirtækið Arctic Sea Farm tilkynnti Fiskistofu og Matvælastofnun um gat á botni eldiskvíar á vegum fyrirtækisins í Haukadalsbót í Dýrafirði. Fyrirtækið hefur í samráði við Fiskistofu sett af stað viðbragðsáætlun vegna slysasleppinga og verið er að leggja mat á fjölda fiska sem hafa sloppið. Um er að ræða geldan og sjúkdómalausan regnbogasilung sem er ekki fær um að fjölga sér í íslenskri náttúru.

Í tilkynningu fyrirtækisins til fjölmiðla í gær segir að gatið gæti útskýrt mögulega slysasleppingu regnbogasilungs sem var til umfjöllunar í fjölmiðlum síðastliðið haust. Matvælastofnun telur ósennilegt að málin tengist og nálgast þau sem tvö aðskilin tilfelli að svo stöddu. Talsverður stærðarmunur er á þeim fiskum sem veiddust í sumar og þeim fisk sem alinn er í umræddri kví, en þó skal tekið fram að ítarlegri upplýsinga verður óskað frá fyrirtækinu um þann lífmassa sem hefur verið í kvínni.
Í eftirliti Matvælastofnunar með starfsstöðvum Arctic Sea Farm í Dýrafirði þann 20. júní sl. kom fram að búnaður fyrirtækisins var í lagi, þjálfun starfsmanna var einnig í lagi, neðansjávareftirlit var reglulegt, viðbragðsáætlun var til staðar vegna slysasleppinga og var hún aðgengileg á eldissvæðinu. Engin frávik komu fram í verklagi eða búnaði sem gætu orsakað sleppingar úr kvíum.

Eftirlitsmaður á vegum Matvælastofnunar mun skoða aðstæður hjá fyrirtækinu á morgun og frekari upplýsinga verður aflað um mögulegt umfang sleppingar og tildrög hennar.

Deila: