Tveir Heiðraðir á Húsavík
Framsýn stéttarfélag kom að því að heiðra sjómenn á Húsavík á Sjómannadaginn. Heiðrunin fór fram í Sjóminjasafninu á Húsavík. Að þessu sinni voru Hermann Ragnarsson og Jakob Gunnar Hjaltalín heiðraðir fyrir störf sín til sjós en þeir voru til fjölda ára á sjó frá Húsavík og nokkrum öðrum höfnum á Íslandi. Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni Baldursson, flutti ávarp og fór yfir þeirra starfsæfi til sjós.
Ágætu tilheyrendur!
„Ég vil í upphafi óska sjómönnum og fjölskyldum þeirra um land allt til hamingju með daginn. Reyndar okkur öllum enda hefur sjávarútvegur í gegnum tíðina verið einn okkar mikilvægasti atvinnuvegur og fært okkur gjaldeyri og tekjur til að byggja upp grunnstoðir þjóðfélagsins. Þrátt fyrir að útgerð á Húsavík hafi dregist töluvert saman á undanförnum áratugum skipar dagurinn sem áður ákveðinn sess í lífi okkar Þingeyinga, enda tengjumst við sjómennskunni á einn eða annan hátt. Sjórinn gefur en hann tekur líka stundum sinn toll, því miður. Þeirri merkilegu hefð er viðhaldið víða um land að heiðra sjómenn á Sjómannadaginn, sjómenn sem þótt hafa skarað fram úr og skilað góðu og fengsælu starfi, fjölskyldum þeirra og þjóðinni allri til heilla. Í dag ætlum við að heiðra tvo fengsæla sjómenn sem lengi stigu ölduna saman á togurum frá Húsavík. Þeir voru í áhöfn Júlíusar Havsteen sem sigldi fánum bryddur til heimahafnar á Húsavík frá Akranesi árið 1976, þar sem hann var smíðaður fyrir Höfða hf. Þessir ágætu menn hafa upplifað byltingartíma á starfsháttum og aðbúnaði sjómanna um borð í íslenska fiskiskipaflotanum og eiga báðir langan og glæstan feril til sjós. Þetta eru heiðursmennirnir Hermann Ragnarsson og Jakob Gunnar Hjaltalín,“ sagði Aðalsteinn. Eiginkonur þeirra eru Hermanns og Jakobs eru Irmý Dómhildur Antonsdóttir og Hólmfríður Arnbjörnsdóttir
Nánari umfjöllun um þessa heiðursmenn er af finna á heimasíðu Framsýnar https://www.framsyn.is/2019/06/02/sjomenn-heidradir-a-husavik-2/