Uppboðin í Færeyjum kynnt
Færeyska sjávarútvegsráðuneytið hefur gefið út yfirlit yfir fyrirkomulag á uppboðum aflaheimilda á þessu ári. Samtals verða boðin upp réttindi til veiða á 53.000 tonnum af norsk-íslenskri síld, 54.594 tonnum af kolmunna, 10.894 tonnum af makríl, 2.213 tonnum af botnfiski innan lögsögu Rússlands í Barentshafi og 614 tonnum af botnfiski innan lögsögu Norðmanna í Barentshafinu.
Uppboðin dreifast á fimm vikna tímabili með einni án uppboða. Í hverri viku verður opið uppboð hjá Fiskmarkaði Færeyja á þriðjudegi og á fimmtudegi verður lokað uppboð hjá Vörn, Fiskistofu Færeyja.
Þriðjudaginn 22. ágúst verða á opnu uppboði 1.106 tonn af botnfiski innan lögsögu Rússlands og 5.447 tonn af makríl. Fimmtudaginn í sömu viku verða á lokuðu uppboð 1.107 tonn af botnfiski innan lögsögu Rússlands, 614 tonn af botnfiski innan lögsögu Noregs og 5.447 tonn af makríl.
Þriðjudaginn 29. ágúst verða á opnu uppboði heimildir til að veiða á 9.000 tonnum af kolmunna og 9.000 tonnum af norsk-íslenskri síld. Fimmtudaginn í sömu viku verða á lokuðu uppboði heimildir til veiða á 9.000 tonnum af kolmunna og 9.000 tonnum af norsk-íslenskri síld.
Þann 12. september verða á opnu uppboði 9.000 tonn af kolmunna og 9.000 tonn af norsk-íslenskri síld. Tveimur dögum seinna verða á lokuðu uppboði 9.000 tonn af kolmunna og 9.000 tonn af síld.
Á síðasta uppboðinu verða 9.297 tonn af kolmunna og 8.500 tonn af síld á opnu uppboði og síðan 9.297 tonn af kolmunna og 8.500 tonn af síld á lokuðu uppboði.