Frumvarpið fast í nefnd

Deila:

Miklar deilur eru enn um frumvarp færeysku landstjórnarinnar um grundvallarbreytingar á fiskveiðistjórnun í Færeyjum. Stefnt var að því að frumvarpið kæmi til atkvæðagreiðslu og yrði samþykkt á sérstökum þingfundi á Ólafsvöku í lok þessa mánaðar, en málið hefur nú strandað í atvinnuveganefnd og kemur ekki til frekari umræðu á lögþinginu fyrr en eftir næstu mánaðamót.

Stjórnarandstaðan á færeyska lögþinginu er með meirihluta í atvinnuveganefnd og þar eru komnar fram fjölmargar breytingartillögur á frumvarpinu, en engin þeirra hefur verið afgreidd frá nefndinni. Svipaða sögu er að segja af fjárlaganefnd.

Frumvarpið byggist á grundvallarbreytingum á fiskveiðistjórnun úr fiskidagakerfi yfir í kvótakerfi, uppboði á hluta aflaheimilda og banni við erlendri fjárfestingu í sjávarútvegi í Færeyjum. Auk þess eru fleiri þættir eins og ákvæði um löndunarskyldu og að allur afli komi að landi. Allir þessir þættir eru mjög umdeildir.

 

Deila: