Skipt um skoðun í Færeyjum?

Deila:

Fulltrúar í þeirri nefnd færeyska lögþingsins sem fjallar um breytingar á lögum um sjávarútvegsmál þar í landi virðast einhuga um að ekki skuli breyta reglum sem heimila erlendum aðilum að eiga allt að þriðjung í útgerð og fiskvinnslu í Færeyjum samkvæmt frétt í Morgunblaðinu í dag.

Eins og fram kom í Morgunblaðinu í gær hafa slíkar breytingar verið í deiglunni og minnihlutinn í nefndinni talaði fyrir slíku í síðustu viku. Nú er annað hljóð komið í strokkinn og fallið er frá tillögum um nefndar breytingar, samkvæmt áliti því sem í gær var birt á vef færeyska þingsins.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins mun nokkru ráða um þessa breyttu afstöðu umsögn skrifstofu færeyska þingsins. Þar var bent á að yrði heimild útlendinga til þess að eiga hlut í sjávarútvegi í Færeyjum felld úr gildi færi það gegn bæði færeysku og dönsku stjórnarskránni, svo og mannréttindasáttmálum. Einnig bryti slíkt gegn Hoyvíkursamningi Færeyinga og Íslendinga sem tryggir gagnkvæmt viðskiptafrelsi milli þjóðanna.

Uppsögn Hoyvíkursamnings möguleiki

Færeyska lögþingið kemur saman til fundar í dag og þá munu línur skýrast. Síðustu daga hafa Aksel V. Johannesen, lögmaður Færeyja, svo og utanríkis- og sjávarútvegsráðherra, verið erlendis en eru væntanlegir heim. Fyrir vikið hefur ekki verið ljóst hvernig færeyska landstjórnin afgreiðir málið; keyrir það áfram með stuðningi minnihlutans eða gerir á því breytingar.

Fram hefur komið hjá Högna Hoydal, sjávarútvegsráðherra Færeyja, að til greina komi að segja Hoyvíkursamningnum upp, enda skili hann Færeyingum litlum ávinningi.

Deila: