Mjög góð loðnuveiði við Snæfellsnes

Deila:

Rífandi gangur er í loðnuveiðunum við Snæfellsnes þessa dagana og til marks um kraftinn í veiðunum má nefna að Venus NS fékk þar 1.600 til 1.700 tonna afla í dag og er nú á leið til Akraness þar sem farmurinn fer í skurð og hrognafrystingu.

,,Við köstuðum fyrst í morgun og erum nú komnir með ásættanlegan skammt fyrir hrognafrystinguna í þremur köstum,“ sagði Guðlaugur Jónsson skipstjóri er rætt var við hann á heimasíðu HB Granda um miðjan dag. Þá var skipið statt fyrir norðan Snæfellsnes, ekki langt frá Flákanum í Breiðafirði.
Að sögn Guðlaugs er mikið magn af loðnu á miðunum og hann sagði það sína tilfinningu að stöðugt væri að bætast við loðnuna.

,,Ég hef ekki heyrt um vestangöngu enn sem komið er en hún hlýtur að skila sér líkt og undanfarin ár. Þessi vertíð ætti því að standa í einhverja tíu daga í viðbót. Ég trúi því ekki að hún verði mikið styttri,“ segir Guðlaugur Jónsson.
 

 

Deila: