Beitir aflahæstur á loðnunni

Deila:

Beitir NK er með mestan afla á loðnuvertíðinni í vetur með 8.247 tonn samkvæmt aflastöðulista Fiskistofu í gærkvöldi. Fjögur skip voru þá skráð með meiri afla en 6.000 tonn, en alls hefur 21 skip landað loðnu á vertíðinni.

Þau skip sem koma næst á eftir Beiti eru Heimaey VE með 7.572 tonn, Börkur NK 7.320 með tonn, Venus NS 6.342 tonn og Vilhelm Þorsteinsson EA með 6.028 tonn.

Heildaraflinn á vertíðinni var samkvæmt aflastöðulistanum 83.058 tonn og því enn óveidd 113.017 tonn af heildarkvóta upp á 196.075 tonn. Þegar lögð er áhersla á heilfrystingu og síðan hrognatöku ganga veiðarnar yfirleitt hægar, en þegar veitt er til bræðslu. Bæði er að skipin taka ekki fullfermi og löndun gengur hægar til að halda gæðum sem mestum. Þegar hrognakreistingu lýkur má gera ráð fyrir að meiri kraftur færist í veiðarnar áður en loðnan drepst eftir hrygninguna. Ýmsir binda vonir við vestangöngu loðnunnar sem myndi þá bætast við gönguna sem nú er veitt úr og gæti það lengt í vertíðinni.

Veiðisvæðið er nú utarlega á Breiðafirði og því langt stím á helstu löndunarstaðina aðra en á Akranesi og í Helguvík.
Myndina af Beiti tók Eyjólfur Vilbergsson.

Deila: