Loðnuveiðar norsku skipanna skapa margvísleg verkefni hér á landi

Deila:

Að undanförnu hafa tugir norskra skipa lagt stund á loðnuveiðar við landið á sama tíma og íslenski loðnuflotinn hefur verið bundinn við bryggju vegna verkfalls sjómanna. Mörg norsku skipanna hafa landað afla sínum hér á landi og því er loðna fryst til manneldis í ríkum mæli. Þannig hefur starfsfólk þeirra fyrirtækja sem frysta loðnu fengið verkefni en fólkið hefði annars verið verkefnalaust í verkfallinu.

Þau fyrirtæki sem þjónusta loðnuflotann hafa einnig fengið verkefni vegna loðnuveiða Norðmanna. Í morgun kom til dæmis loðnuskipið Harvest til Neskaupstaðar með nót sem þurfti viðgerða við. Starfsmenn Fjarðanets tóku á móti skipinu og munu koma nótinni í lag á sem skemmstum tíma. Jón Einar Marteinsson, framkvæmdastjóri Fjarðanets, sagði í samtali við heimasíðu Síldarvinnslunnar að Harvest hefði fengið nótina í skrúfuna í öðru kasti hér við land og ekki hafi verið um annað að ræða en að koma í land og láta lagfæra skemmdirnar.

„Það kemur sér svo sannarlega vel fyrir okkur að fá verkefni af þessu tagi í verkfallsástandinu, en annars hefur ekki verið mikið um veiðarfæratjón hjá Norðmönnunum vegna þess að tíðarfarið hefur verið svo einstaklega gott,“ sagði Jón. „Nú bregður hins vegar svo við að spáð er alvöru vetrarveðri eftir nokkra daga en hafa ber í huga að síðasti dagurinn sem Norðmenn mega veiða hér við land er 22. febrúar,“ sagði Jón að lokum.

Þegar þetta er skrifað hefur bjartsýni manna um lausn á kjaradeilu útvegsmanna og sjómanna aukist til muna. Samningur á milli deiluaðila liggur fyrir en beðið er eftir svörum ríkisvaldsins til lausnar deilunni.

Á myndinni má sjá norska loðnuskipið Harvest koma til Neskaupstaðar með nót til viðgerðar.
Ljósm. Hákon Ernuson
 

Deila: