Veiðigjöld og samruni sjávarútvegsfyrirtækja

Deila:

Auðlindin hefur fengið eftirfarandi grein eftir Gunnar Þórðarson viðskiptafræðing til birtingar. Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu í gær.

Viðbrögð vinstrimanna við kaupum Síldarvinnslunnar á Vísi hf. koma ekki á óvart og eru í takt við fyrri ummæli þeirra um íslenskan sjávarútveg. Oft veit maður ekki hvort þetta fólk talar þvert um hug sér eða hvort það skortir innsýn í atvinnugreinina. Hærri veiðigjöld valda samþjöppun í sjávarútvegi! Það er eins augljóst og verið getur; en það er ekki neikvætt fyrir íslenskt samfélag!

Veiðigjöld

Gunnar Þórðarson

Til að komast af við hærri veiðigjöld, sem eru núna yfir 30% af hagnaði útgerðar, er engin önnur leið en að hagræða í rekstri, sem byrjar í láréttum samruna og þegar lengra dregur í lóðréttum samruna. Fyrirtæki þurfa að stækka til að takast á við aukna skattheimtu og reyna að hafa betri stjórn á sinni virðiskeðju með því að taka stærri hluta hennar yfir. Ef ekkert hefði breyst undanfarna áratugi í sjávarútvegi og fyrirtæki ekki verið sameinuð eða yfirtekin væri engin umræða um veiðigjöld; enda væru engin veiðigjöld og afkoman væri slök. Svona svipað og ástandið var á tíunda áratug síðustu aldar og lítil sem engin fjárfesting átti sér stað. Þá væri sennilega allt í góðu lagi og vinstrimenn ánægðir með ástandið!

Í mínum huga er það kristaltært hvað vakir fyrir Síldarvinnslunni með kaupum á Vísi. Það liggur í orðum forstjóra Síldarvinnslunnar um að þetta sé liður í að byggja fyrirtækið upp sem alþjóðlegt sjávarútvegsfyrirtæki. Nýlega keypti fyrirtækið stóran hlut í laxeldisfyrirtæki af sömu ástæðum. Þannig hefur fyrirtækið aukið breidd sína, sem gefur gríðarleg tækifæri á markaði og tekur til sín stærri sneið af virðiskeðjunni. Hafa verður í huga að Síldarvinnslan, eftir kaupin á Vísi, er örsmátt fyrirtæki á markaði með sjávarafurðir í heiminum, og þarf að fást við öfluga keppinauta.

Með betri tengingu við markaðinn, þar sem menn teygja sig lengra niður virðiskeðjuna, nást möguleikar á að bæta vöruframboð, bjóða upp á einstakar vörur, sem eykur virði kaupanda og þar með verðmæti framleiðslunnar. Þetta er einmitt hluti af þeirri þróun að reka íslenskan sjávarútveg markaðsdrifinn, þar sem horft er til þarfa viðskiptavinarins við verðmætasköpun.

Jafnframt verður að hafa það í huga að aðeins um helmingur verðmæta í útflutningi sjávarútvegs endar hjá íslenskum fyrirtækjum. Hinn helmingurinn rennur til erlendra aðila. Þar liggja einmitt tækifæri fyrir Síldarvinnsluna í framtíðinni. Með því að bjóða upp á einstakar vörur á öllum tímum getur fyrirtækið tekið yfir hluta af erlendri virðiskeðju og aukið þannig verðmætasköpun með betri markaðsaðgangi.

Tækifæri framtíðar

Tækifæri Síldarvinnslunnar við kaupin á Arctic Fish og Vísi blasa því við hverjum þeim sem vill horfa hlutlægt á þessi mál: Aukin verðmæti fyrir íslenskan sjávarútveg og íslenska þjóð. Með því að taka til sín stærri hluta virðiskeðjunnar verða bæði til verðmæti og eins spennandi störf fyrir Íslendinga í framtíðinni. Síldarvinnslan er fyrirtæki á markaði með þúsundir eigenda. Það er eðlileg krafa til stjórnmálamanna að ræða svona mál af alvöru en ekki bara til að tala inn í tiltekna hópa. Bolfiskvinnsla Vísis er ein sú fullkomnasta í heimi og er ekki á leið frá Grindavík í framtíðinni. Þar er mannauðurinn, nálægð við fiskimið og markaðinn.

Deila: