Netagerðin verður áfram sérstakt iðnnám
,,Þessi ákvörðun menntamálaráðherra er sérstakt gleðiefni fyrir fagið því það er ekki langt síðan að rætt var um að leggja þetta nám niður á framhaldsskólastigi,“ segir Guðmundur Gunnarsson, löggiltur netagerðarmeistari og þróunarstjóri veiðarfæra hjá Hampiðjunni í samtali á heimasíðu félagsins.
Ákvörðunin sem Guðmundur vísar til er sú að menntamálaráðuneytið hefur samþykkt námskrá netagerðar, sem er löggilt iðngrein, sem hluta af aðalnámskrá framhaldsskólanna.
Námið er samningsbundið iðnnám og skiptist í bóklegar greinar á tveimur önnum í skóla og vinnu- staðanám, samtals 204 einingar. Í vinnustaðanámi afla nemendur sér námssamnings í fyrirtæki sem samsvarar 146 einingum. Námi í netagerð lýkur með sveinsprófi.
Netagerð hefur verið kennd við Fjölbrautaskóla Suðurnesja frá haustinu 1991, fyrst undir stjórn Björns Bjarnasonar og síðan Lárusar Pálmasonar frá 1995. Lárus segir að breytingin nú stafi m.a. af því að breytingar verði á kennslu við skólann í kjölfarið á styttingu náms til stúdentsprófs.
,,Hér er nú kennt samkvæmt nýrri námskrá sem var endurskoðuð og endurbætt af þeim Gylfa Einarssyni, Herði Jónssyni og Guðmundi Gunnarssyni auk mín. Nemendur á þessari önn eru sex talsins en þeir voru 15 á síðustu önn og 25 á vorönninni í fyrra. Þegar við byrjuðum á kennslunni þá voru nemendur um 15 talsins. Aðal breytingin í seinni tíð er fólgin í fjarnáminu og nemendur stunda bóklega námið heiman frá sér um land allt. Þá verð ég var við að stýrimenn, eða aðrir sem tengjast sjómennsku, eru í stórauknum mæli farnir að sækja í þetta nám og þar á meðal 29 manns í gegnum raunfærnimat í netagerð sem er í umsjón Iðunnar fræðsluseturs og er meðalaldur nemendanna um 30 ár.“
Lárus Pálmason segir sjómennina líta á netagerðina sem mögulegan starfsvettvang eftir að þeir komi í land. Um helmingur nemendanna skilar sér hins vegar beint út í greinina að námi loknu.