Matís á afmæli í ár

Deila:

Matís varð 10 ára þann 1. janúar, en þann dag árið 2007 tók Matís opinberlega til starfa. Þá runnu saman rannsóknastofa Umhverfisstofnunar, RALA, RF og líftæknifyrirtækið Prokaria, og mynduðu eina sterka heild þar sem rannsóknir á matvælum og í líftækni fengu samastað, þar sem áhersla var á að auka verðmætasköpun í íslenskri matvælaframleiðslu, matvælaöryggi og lýðheilsu.

„Í ljósi þessa ákváðum við að setja saman ársskýrslu þar sem litið væri um öxl og stiklað á stóru í starfssemi Matís,“ segir á heimasíðu Matís. Þar segir ennfremur; „Í skýrslunni þetta árið, sem venju samkvæmt er gefin út fyrsta virka daginn í janúar, er farið yfir víðan völl og segja má að skýrslan þetta árið sé samansett úr mismunandi smásögum, það sem við köllum árangurssögur, og sýnir innihald hennar svo ekki verður um villst að stofnun Matís var rökrétt og mikið framfaraskref á sínum tíma. Ársskýrslan er að þessu sinni á ensku í heild sinni en íslenskir útdrættir, þar sem áhersla er lögð á það sem gerðist í starfssemi okkar á Íslandi, verða gefnir út á næstu dögum.

Við horfum stolt til baka og bjartsýn fram á veginn. Mjög margt áhugavert, skemmtilegt og krefjandi mun eiga sér stað á þessu ári og er óhætt að segja að einn stærsti viðburðurinn sem Matís hefur tekið að sér verði á þessu ári þegar við sjáum um World Seafood Congress (WSC). Viðburðurinn er einn stærsti viðræðuvettvangur í heimi á sviði verðmætasköpunar í sjávarútvegi og matvælaöryggis, og dregur að borðinu fólk úr öllum hlutum virðiskeðju sjávarfangs. Á ráðstefnuna koma starfsmenn útgerða og fiskvinnsla, fjárfestar og fólk úr stofnana- og menntaumhverfinu víða um heim, ekki síst frá þróunarlöndum. Það er okkur sannur heiður að fá tækifæri til að halda þessa ráðstefnu og hlutverkið er okkur mikil hvatning.

Vöxtur Matís hefur verið töluverður á síðastliðnum 10 árum, en slíkt gerist ekki án öflugra starfsmanna.“
Skýrsluna má sjá á eftirfarandi slóð:

https://indd.adobe.com/view/e7fc9e01-4aa2-43f4-ad8d-1fa44253e258

 

 

Deila: