Rólegt yfir strandveiðum á svæðum B, C og D

Deila:

Nú eru fjórir dagar eftir af veiðitímabili strandveiðibáta í júní. Veiðarnar á svæði A voru stöðvaðar frá og með síðasta miðvikudegi. Þá var afli þeirra orðinn 931 tonn og aðeins 37 tonn óveidd af leyfilegum heildarafla. Þær heimildir færast yfir á næsta tímabil. Veiðar á öðrum svæðum hafa gengið mun verr og ólíklegt að bátar þar nái að sækja allar sínar heimildir. Það sem eftir kann að standa af þeim, færist þá yfir á næsta tímabil.

215 bátar lönduðu afla á svæði A í júní. Alls fóru þeir í 1.372 róðra og var meðalafli í róðri 679 kíló og afli í mánuðinum að meðaltali 4,3 tonn á bát samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Landssambands smábátaeigenda.

Á svæði B hafa 116 bátar róið alls 548 sinnum og landað 283 tonnum. Leyfilegur heildarafli þeirra er 738 tonn og því óveidd 454 tonn. Afli í róðri er 517 kíló að meðaltali og afli á bát að meðaltali 2,4 tonn.

Á svæði C hefur 101 bátur landað samtals 246 tonnum eftir 475 róðra. Leyfilegur heildarafli er 850 tonn og því eru óveidd 604 tonn. Meðalafli í róðri er 518 kíló að meðaltali og afli á bát 2,4 tonn.

Á svæði D hafa 102 bátar landað 317 tonnum í 530 róðrum. Leyfilegur heildarafli er 708 tonn og því um 390 tonn óveidd. Meðalafli í róðri til þessa er 599 kíló og meðalafli á bát 3,1 tonn.

Deila: