Skip Brims veiddu tæp 150.000 tonn í fyrra

Deila:

Heildarafli skipa félagsins var 147 þúsund tonn á árinu 2021, sem er um 19 þúsund tonnum meiri afli en 2020. Afli uppsjávarskipa var um 96 þúsund tonn og jókst um 14 þúsund tonn milli ára. Þessi aukning skýrist að mestu af því að á árinu 2021 var gefinn út loðnukvóti eftir að engar loðnuveiðar höfðu verið tvö ár þar á undan en á móti minnkaði afli í kolmunna og makríl. Í ágúst 2021 bættist einnig við þriðja uppsjárskip félagsins, Svanur RE. 

Afli frystitogara var um 25 þúsund tonn sem er um 2 þúsund tonnum minni en árið 2020. Skýringin á þessari minnkun er að Höfrungur III AK var seldur í september 2021 til þess að mæta samdrætti í úthlutun botnfiskskvóta í þorski og karfa. 
Afli ísfiskskipa var um 26 þúsund tonn sem er um 6 þúsund tonnum meiri afli en 2020. Þessi aukning á afla skýrist af meira úthaldi og betri veiði, en árið 2020 var fiskiðjuver félagsins við Norðurgarð lokað í um þrjá mánuði vegna endurnýjunar á vinnslubúnaði og lagfæringa á húsnæði. 
Heildaraflaverðmæti skipa félagsins var 19.965 milljónir kr. á árinu 2021 og jókst um 1.916 milljónir króna milli ára.
Í meðfylgjandi töflu er afli og aflaverðmæti einstakra skipa og útgerðarflokka 2021 í samanburði við árið á undan. 
Aflaupplýsingar eru slægður afli. Allar tölur eru birtar með fyrirvara um endanlegt uppgjör.

Deila: