Verðmæti fiskaflans lækkar verulega
Tölur Hagstofu Íslands um verðmæti afla upp úr sjó í mars síðastliðnum staðfesta verulega lækkun fiskverðs á síðustu 12 mánuðum, eða frá því í mars í fyrra. Það sést glögglega á því að aflaverðmæti botnfisks í mars nú er 8,3% lægra en í mars í fyrra. Botnfiskaflinn jókst hins vegar um 14% í mars miðað við sama mánuð 2016. Því má segja að verðmætið hafi í raun lækkað um 22%.
Aflaverðmæti íslenskra skipa í mars var 14,8 milljarðar króna sem er 3% minna en í mars 2016. Verðmæti botnfiskaflans nam 9,6 milljörðum sem er 8,3% samdráttur miðað við mars 2016. Af botnfisktegundum var verðmæti þorskafla mest eða 6,6 milljarðar. Verðmæti uppsjávarafla, sem var að megninu til loðna, nam ríflega 4,5 milljörðum í mars sem er 18,3% aukning samanborið við mars 2016.
Verðmæti afla sem seldur var í beinni sölu útgerða til vinnslu innanlands nam tæpum 9,6 milljörðum í mars sem er 3,8% aukning samanborið við mars 2016. Verðmæti afla sem keyptur var á markaði til vinnslu innanlands nam rúmum 1,7 milljörðum og dróst saman um 2,7%. Aflaverðmæti sjófrystingar nam tæpum 3,1 milljarði sem er 18,4% samdráttur miðað við mars 2016.
Á 12 mánaða tímabili frá apríl 2016 til mars 2017 nam aflaverðmæti íslenskra skipa tæpum 118 milljörðum króna sem er 17,5% samdráttur miðað við sama tímabil ári fyrr.
Athyglivert er að að bera saman breytingar á verðmæti aflans og magni milli marsmánaða nú og í fyrra. Verðmætið dregst saman um 3% þrátt fyrir aukningu heildaraflans um 53%. Það bendir ótvírætt til mikillar verðlækkunar á fiski upp úr sjó.
Sé litið á botnfiskinn var aflinn í mars 56.535 tonn, sem er 14% aukning. Verðmæti þessa afla var 9,6 milljarðar, sem er samdráttur um 8%. Lauslega reiknað bendir þetta til þess að verð á botnfiski hafi fallið um 22% á milli marsmánaða 2016 og 2017.
Þorskafli í mars í ár varð 34.455 tonn sem er 21% meira en í sama mánuði í fyrra. Verðmæti þorskaflans í mars nú varð 6,6 milljarðar króna, sem er samdráttur um 0,1%. Sviðuð þróun er í öðrum botnfisktegundum, verðmætið lækkar en aflinn eykst.
Af uppsjávarfiski veiddust 142.000 tonn í marsmánuði, sem er aukning um 79% miðað við sama mánuð í fyrra. Verðmæti þessa afla varð 4,5 milljarðar nú í mars, sem er 18,3% vöxtur. Þessi munur bendir einnig til verulegrar verðlækkunar og eins og fram hefur komið er það sterkt gengi Íslensku krónunnar, sem veldur verðlækkun á fiskafurðum og fiski upp úr sjó.
Á myndinni er landað úr Þóri SF í Grindavík. Ljósmynd Hjörtur Gíslason.